Fara á efnissvæði
22. febrúar 2018

Jóhannes Sigmundsson látinn

Jóhannes Sigmundsson frá Syðra-Langholti, heiðursformaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) lést á mánudag. Hann var á 87. aldursári.

Jóhannes tók þátt í nefndar- og stjórnarstörfum fyrir HSK í 60 ár. Hann var kosinn formaður HSK árið 1966 þegar Sigurður Greipsson (sem var formaður HSK árin 1921-66) lét af störfum. Hann sinnti því af glæsibrag. Eftir að Jóhannes hætti sem formaður tók hann virkan þátt í starfi sambandsins HSK og var hann heiðraður fyrir það í mars árið 2011.

Jóhannes sat í sögu- og minjanefnd HSK, átti sæti í ritnefnd sambandsins vegna útgáfu á bókinni HSK í 100 ár og var ætíð boðinn og búinn að taka þátt í störfum sambandsins.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) sendir fjölskyldu Jóhannesar innilegar samúðarkveðjur.

Á myndinni hér að ofan er Jóhannes með Guðríði Aadnegard, formanni HSK, þegar hann var sæmdur heiðursformaður.