Fara á efnissvæði
12. apríl 2018

Jón Egill er nýr framkvæmdastjóri UDN

„Þetta leggst afar vel í mig enda er starfið fjölbreytt,“ segir Jón Egill Jónsson sem hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN). Hann tók til starfa rétt eftir miðjan mars og er jafnframt íþrótta- og tómstundafulltrúi Dalabyggðar.

Jón er Dalamaður eins og Svana Hrönn Jóhannsdóttir, sem gegndi starfinu á undan honum. Svana hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Glímusambands Íslands. Hún hefur hins vegar ekki alveg snúið baki við UDN því saman vinna þau að því að skipuleggja 100 ára afmæli félagsins en það er stærsti viðburðurinn sem framundan er.

 

Hundrað ára samband

UDN hét upphaflega Hjeraðssamband Dalamanna (Hs. Dm) og var stofnað á Kirkjubóli í Saurbæ 24. maí árið 1918. Fjögur félög stóðu að stofnuninni; Umf. Ólafur pái, Umf. Unnur djúpúðga, Umf. Dögun og Umf. Stjarnan. Árið 1926 er nafni félagsins breytt í Ungmennasamband Dalamanna (UMSD). Árið 1971 gekk svo Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga inn í Ungmennasamband Dalamanna og heitir sambandið eftir það Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga, sem stytt er UDN.

Núverandi aðildarfélög UDN eru Umf. Æskan, Umf. Ólafur Pái, Umf. Dögun, Umf. Stjarnan, Umf. Afturelding, Hestamannafélagið Glaður og Glímufélag Dalamanna.

Starfsvæði Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga er Dalasýsla og Austur-Barðastrandarsýsla.

Aldarafmælið ber upp í sauðburði og er því gert ráð fyrir að fögnuðinum verði frestað fram yfir hann.

UDN er eitt 29 sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilar UMFÍ eru nú 18 héraðssambönd og 11 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 340 félög innan UMFÍ með rúmlega 160 þúsund félagsmenn.