Fara á efnissvæði
29. maí 2018

Jón Jónsson og Frikki Dór nota Hreyfibingó UMFÍ

„Hreyfibingóið var dásamlegt. Það er gaman að hvetja fólk til að hreyfa sig,“ segir Jón Jónsson tónlistarmaður. Hann og Friðrik Dór bróðir hans og vinir þeirra notuðu Hreyfibingó UMFÍ þegar þeir tóku á því í ræktinni í Kaplakrika í gær. Þeir fara í ræktina nokkrum sinnum í viku til að gera Friðrik Dór fallegri áður en hann gengur í það heilaga í ágúst.

Jón segir það ganga vel, Friðrik hafi nú misst 15 kíló.

 

Hreyfibingó UMFÍ

Hreyfibingóið er leikur sem UMFÍ bjó til í tengslum við Hreyfiviku UMFÍ sem hófst í gær, 28. maí og stendur til 3. júní. Þetta er einfaldur og skemmtilegur leikur fyrir börn og fullorðna, alla fjölskylduna, ættingja og vinina og hentar öllum aldurshópum.

Þeir sem vilja taka þátt í Hreyfibingóinu geta ýmist prentað út myndina hér að neðan eða haft samband við þjónustumiðstöð UMFÍ og óskað eftir því að fá send bingóspjöld heim að dyrum.

Markmiðið með Hreyfivikunni er að fjölga þeim sem hafa gaman af því að hreyfa sig reglulega. Eins og tekið er fram á Hreyfibingóspjaldinu þá er upplagt að gera eina af æfingunum sem eru á því og upplagt að setja myndina á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #minhreyfing.

Meira um Hreyfibingó UMFÍ

 

Frikki Dór í núvitund

Jón segir að þeir félagar hafi verið við æfingar í líkamsræktinni í Kaplakrika í gær þegar þeir hittu Janus Guðlaugsson, sem var að þjálfa eldri borgara í bænum. Hann gaf þeim Hreyfibingóið og buff. Á vídeóinu sem þeir gerðu í gær og settu á Instagram-síðu Jón eru þeir allir með Hreyfivikubuff og má sjá Frikka Dór í núvitund, sem er einn af möguleikunum í Hreyfibingóinu.