Jón Þór hjá Ármanni: Misjafnt hvenær tjónið kemur fram
„Það verður aldrei hægt að útfæra svona stuðning sem hentar öllum. Það er misjafnt eftir félögum og greinum hvenær tjón þeirra kemur fram. Við getum séð tjónið nú þegar sem knattspyrnan verður fyrir því tímabilinu er lokið. En tjón félaga sem byggja á vetrarstarfi, verður ekki sjáanlegt fyrr en síðar. Það verður því að útfæra stuðninginn með mismunandi hætti eftir deildum og greinum,‟ segir Jón Þór Ólason, framkvæmdastjóri Glímufélagsins Ármanns í Reykjavík.
Ármann er aðildarfélag Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, greindu í dag frá umfangsmilum aðgerðum til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélögum landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á starf þeirra.
Endanlegar útfærslur á tillögunum verða unnar í samstarfi við íþróttahreyfinguna og gert er ráð fyrir að útfærslan liggi fyrir eigi síðar en 10. nóvember 2020.
Í tilkynningu stjórnvalda eru taldar upp nokkrar aðgerðir:
- Stefnt á að útvíkka úrræði Vinnumálastofnunar þannig að tryggt verði að í þeim tilvikum sem íþróttafélagi eða samstarfsaðilum ÍSÍ er gert að láta af starfsemi sinni vegna sóttvarna geti félagið sótt um styrki vegna launagreiðslna til starfsmanna sem ekki geta sinnt starfi sínu á því því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir. Gert er ráð fyrir að styrkirnir nemi sömu fjárhæðum og kveðið er á um í lögum um sóttkvíagreiðslur.
- Íþrótta- og æskulýðsfélögum, ásamt sambandsaðilum ÍSÍ, gert kleift að sækja um sérstaka styrki vegna tekjufalls á tímabilinu 1. júní sl. til 1. október sl.
- Einnig verður þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar frá 1. október sl. og þar til starfsemi hreyfingarinnar kemst í eðlilegt horf. Orsakir þessa tekjufalls og verktakagreiðslna þurfa að hafa verið vegna sóttvarna á því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir. ÍSÍ mun sjá um umsýslu aðgerðarinnar.
Sjá:
Stjórnvöld kynna aðgerðir til aðstoðar íþrótta- og æskulýðsfélögum