Fara á efnissvæði
20. mars 2018

Jónas er nýr formaður HSÞ

Guðrún Kristinsdóttir hjá Völsungi var heiðruð með starfsmerki UMFÍ á ársþingi Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) í síðustu viku. Á þinginu varð breyting á stjórn HSÞ og tók þar Jónas Egilsson við af Anitu Karin Guttesen sem formaður sambandsins.

Guðrún Kristinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir gott og ötult starf á vegum Völsungs í mörg ár. Hún kom fyrst til íþróttafélagsins Völsungs árið 1980 og sá þá um leikjanámskeið fyrir Völsung. Þegar hún flutti til Húsavíkur árið 1986 stofnaði hún strax fimleikadeild innan Völsungs og var formaður deildarinnar í um 20 ár. Guðrún hefur starfað sem þjálfari, stjórnarmaður og formaður deildarinnar í um 32 ár. Guðrún tók við sem formaður Íþróttafélagsins Völsungs árið 2010 og hefur verið það síðan. Þar hefur hún unnið mikið og gott starf.

Guðrún hefur verið viðriðin starfið hjá Völsungi sem nefndarmaður, foreldri, og svo sem formaður félagsins frá árinu 2010 og komið að flestum íþróttagreinum sem sjálfboðaliði. Einnig hefur hún stundum leyst framkvæmdastjóra félagsins af.

Jónas Egilsson kemur frá Umf. Langnesinga. Aðrir nýkjörnir stjórnarmenn á þingi HSÞ eru þau Jón Sverrir Sigtryggsson frá Hestamannafélaginu Þjálfa, Ásdís Inga Sigfúsdóttir frá Ungmennafélaginu Eflingu og Selmdís Þráinsdóttir frá Völsungi.
Fráfarandi stjórnarmenn eru Jóhanna Jóhannesdóttir og Kristján R. Arnarson. Á ársþinginu var þeim þakkað fyrir framlag sitt.

Mæting aðildarfélaga HSÞ á ársþingið var góð. Nítján félög af 22 virkum félögum sendu fulltrúa á þingið auk Frjálsíþróttaráðs HSÞ sem einnig á rétt á einum fulltrúa. Alls voru því á þinginu 58 fulltrúar auk þeirra Gunnars Gunnarssonar, formanns UÍA, og Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ.

Baldvin Kristinn Baldvinsson, Hestamannafélaginu Þjálfa, fékk viðurkenningu fyrir áratugalangt starf sitt hjá Þjálfa, en Baldvin sat einnig um tíma sem stjórnarmaður í HSÞ.

Kolbrún Ívarsdóttir, Mývetningi, fékk jafnframt viðurkenningu fyrir ötult sjálfboðaliðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar í mörg ár. Hún hefur bæði setið í stjórn Mývetnings íþrótta- og ungmennafélags, bæði sem gjaldkeri og ritari, og einnig í stjórn HSÞ sem gjaldkeri. Hún hefur ávallt staðið við bakið á sínum börnum sem og öðrum börnum í Mývatnssveit, fylgt þeim á æfingar og keppnir um land allt. Hún var einn af drifkröftunum þegar skíðastarf Mývetnings var keyrt af stað og var potturinn og pannan í allri vinnu tengdu starfinu. Eftir að starfið lagðist að mestu niður hefur Kolla keyrt allt að tvisvar til þrisvar í viku til Akureyrar yfir vetrartímann með drengi sína tvo á skíðaæfingar. Og þar hefur hún svo staðið vaktina á mótum og keppnisferðum Skíðafélags Akureyrar. Frá því að Mývatnsmaraþonið var fyrst haldið sumarið 1995 hefur Kolla ávallt verið við vinnu við það, ýmist á drykkjarstöð, skráningu eða í tímatöku. Sjálfboðaliðastarfið er gríðarlega mikilvægt í öllu íþróttastarfi og það er litlu íþróttafélagi eins og Mývetningi mjög mikilvægt að eiga svona frábæran sjálfboðaliða sem alltaf er klár í slaginn eins og hún Kolla er og hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

 

Vefsíða HSÞ