Fara á efnissvæði
26. mars 2020

Jónas hjá Völsungi:  Íþróttafélögin haldi iðkendum virkum

„Við fellum niður 100 skipulagðar æfingar í hverri viku og það hefur áhrif á 600 iðkendur í skipulögðu starfi félagsins. Þetta hefur mikil áhrif bæði á Völsung og iðkendur, andlega og ekki síður fjárhagslega. En mikilvægasta hlutverk okkar er að halda iðkendum við efnið og í starfinu,“ segir Jónas  Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs á Húsavík. Félagið er eitt fjölmargra aðildarfélaga Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ), sem er sambandsaðili UMFÍ. 

Stjórnendur og þjálfarar Völsungs eru í sömu sporum og allir í íþróttahreyfingunni. Allt íþróttastarf liggur niðri á meðan samkomubanninu stendur. Jónas segir að um leið og skólastarf var takmarkað til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hafi Völsungur fellt æfingar niður.  

 

Jónas leggur áherslu á að íþrótta- og ungmennafélögin standi frammi fyrir tvíþættum vanda. Að finna leiðir til að halda úti æfingum og halda iðkendum þannig virkum og um leið sé fjármögnun í uppnámi þar sem fyrirtæki séu helstu stuðningsaðilar. Þá sé mikilvægt að íþróttafélögin gleymist ekki í umræðunni þegar samfélagið fer að ganga sinn vanagang aftur.

 

Jónas segir stærstu áskorun Völsungs og fleiri íþrótta- og ungmennafélaga að stoppa ekki starfið þótt æfingar falli niður.

„Nú þegar skólastarfið er takmarkað þá þurfum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda áfram. Við getum nýtt tímann til að skipuleggja starfið svo það gangi áfallalaust þegar við komumst aftur í gang. En öllu skiptir að halda iðkendum virkum. Jafnvel þótt þeir geri sitt heima eða úti. Um leið og fólk tekur sér hlé frá íþróttum þá tökum við skref aftur á bak. Og þá fyrst lendum við í vanda. Þess vegna verðum við að halda áfram,“ segir hann og bætir við hversu ánægjulegt það er að leiðindaveðrinu sé loks að slota sem gengið hefur yfir landið og staðið í vegi fyrir því að fólk fari út að njóta hreyfingar.

„Það er líka svo mikilvægt að sjá sólina,“ segir hann.