Karen og systir hennar hafa skráð sig í 15 greinar á Landsmótinu
„Mig langar að prófa eins margar greinar og ég get. Þetta er allt svo spennandi,“ segir Karen Mjöll Björgvinsdóttir. Hún hefur skráð sig í 15 greinar sem eru í boði á Landsmótinu á Sauðárkróki.
Karen, sem er fædd árið 1993, býr í Hafnarfirði og hefur æft lyftingar undanfarin fimm ár. Hún ætlar samt ekki að taka þátt í kraftlyftingum á Landsmótinu. Hún ætlar að mæta galvösk á mótið með systur sinni sem býr á Króknum. Systir hennar Þórunn hefur skráð sig í þátttöku í álíka mörgum greinum. Þær eru saman á myndinni hér að ofan.
„Við ætlum að keppa saman í liði í brennibolta, strandblaki og metabolic. En síðan finnst mér gaman að baka og þess vegna skráði ég mig í pönnukökubakstur,“ segir Karen. Hún ætlar auk þess að keppa í biathloni, crossfit, stígvélakasti, þrautahlaupi og láta vaða í fitness, fimleikum, gömlu dönskunum, salsa og diskói.
Íþróttaveislan á Sauðárkróki
Landsmótið er sannkölluð íþróttaveisla sem fram fer á Sauðárkróki 12. - 15. júlí 2018. Á mótinu er hægt að velja fleiri en 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks. Þátttökugjald er 4.900 krónur.
Allir 18 ára og eldri geta skráð sig til þáttöku en að auki verður margt í boði fyrir mótsgesti yngri en 18 ára. Landsmótið er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Fyrirkomulag mótsins er nýtt. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt er að kynnast nýjum íþróttagreinum, fá kennslu í þeim og taka fyrstu skrefin í nýrri hreyfingu. Þú setur saman þitt eigið Landsmót.
Það verður nóg að gera í allskonar íþróttum á daginn. Auðunn Blöndal og Steindi jr. stýra götupartíi og tónlistarveislu föstudagskvöldið 13. júlí. Kvöldið eftir er hlaðborð og skemmtikvöld með konungi skagfirsku sveiflunnar, honum Geirmundi Valtýssyni. Á eftir stígur Páll Óskar á svið og stýrir Pallaballa eins og honum einum er lagið.
Komdu og kynntu þér alla gleðina sem er í boði á www.landsmotid.is