Fara á efnissvæði
06. apríl 2022

Karl sæmdur gullmerki UMFÍ á þingi HSK

Karl Gunnlaugsson frá Ungmennafélagi Hrunamanna og Golfklúbbnum Flúðir var sæmdur gullmerki UMFÍ á 100. héraðsþingi Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) sem fram fór í síðustu viku. Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf Selfoss, og Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir, Umf Þjótanda, fengu starfsmerki UMFÍ. Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarmaður í UMFÍ og formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ, sat þingið og afhenti viðurkenningarnar.

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, var endurkjörin á þinginu. Ein breyting varð þó á stjórn en Baldur Gauti Tryggvason gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Lárus Ingi Friðfinnsson frá Hamri í Hveragerði kom inn í stjórnina í hans stað.

Þingið var vel sótt en um 120 manns mættu á það.

 

Meira um Karl Gunnlaugsson

Karl á Varmalæk kynntist íþróttum fyrst á árshátíð  Ungmennafélags Hrunamanna 10 ára gamall. Allar götur síðan hefur hann stundað íþróttir og er enn að. Fyrstu árin stundaði hann frjálsíþróttir og var líkt og Jóhannes í gullaldarliði Umf. Hrunamanna um 1950. Hann hefur iðkað ótrúlegan fjölda íþrótta í gegnum tíðina eða frjálsíþróttir, sund, körfuknattleik, borðtennis, glímu, billjard, skotfimi, skák, bridds, starfsíþróttir, skíði, fimleika og golf. Þetta kemur fram í samantekt um íþróttaferil hans sem hann tók saman fyrir nokkrum árum og sendi HSK. Líklega hefur vinur hann J’ohannes stundað felestar þessar greinar með honum.

Karl hefur tekið virkan þátt í félagsmálum frá unga aldri og m.a. setið í stjórn og nefndum Umf. Hrunamanna um árabil. Hann var kosinn formaður Golfklúbbsins Flúða við stofnun hans árið 1985 og gegndi því um árabil.

Hann hefur einnig verið virkur í nefndarstarfi HSK og hsetið í fjölda íþróttanefnda hjá sambandinu, nú síðast sem formaður golfnefndar HSK.

Karl mætti á sitt fyrsta héraðsþing fyrir 75 árum og hefur keppt á flestum Landsmótum UMFÍ frá árinu 1952. Hann stundar enn íþróttir af kappi níræður að aldri.

 

Gissur Jónsson

Gissur hefur verið framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss frá árinu 2013. Áður en hann tók við starfinu var hann öflugur félagsmaður í knattspyrnudeild Selfoss og hélt m.a. utan um getraunastarf félagsins af miklum myndugleik.

Gissur hefur unnið mjög gott starf fyrir hreyfinguna og verið virkur þátttakandi á fundum og þingum samtakanna.

 

Hallfríður Ósk

Hallfríður hefur verið virk í starfi Umf. Vöku og Umf. Þjótanda í mörg ár. Hún var gjaldkeri Umf. Vöku árin 2005-2015 og hefur tekið þátt í störfum Umf. Þjótanda frá stofnun félagsins árið 2015. Hallfríður hefur einnig tekið þátt í störfum HSK og átti m.a. sæti í starfsíþróttanefnd HSK árin 2009-2017.