Fara á efnissvæði
20. ágúst 2024

Kátínan í fyrsta sæti í Drulluhlaupi Krónunnar

Rúmlega 1.000 manns tók þátt í Drulluhlaupi Krónunnar sem fram fór í umhverfi Íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá í Mosfellsbæ á laugardag. Þetta var frábær viðburður enda góð stemming, gleðin í aðalhlutverki og frábært hlaupaveður: stilla og hlýtt og sól, sem hækkaði á lofti eftir því sem leið á daginn.

Þau Sandra Barilli og Gústi B. sáu um upphitun hlaupahollanna og peppuðu alla á svæðinu. Happy Hydrate gaf drykki eftir hlaup og Krónuhjólið var fullt af ferskum ávöxtum fyrir þátttakendur.

Þetta var í þriðja árið í röð sem Drulluhlaup Krónunnar er haldið í Mosfellsbæ en það er samstarfsverkefni UMFÍ, Krónunnar og Ungmennafélagsins Aftureldingar. 

Viðburðurinn er fyrir alla fjölskylduna og eða einstaklinga þar sem tíminn skiptir ekki máli heldur að komast í gegnum 20 hindranir sem eru á 3,5 kílómetra leið. Áhersla er lögð á skemmtilega hreyfingu, gleði og samvinnu.

Einkar skemmtilegt var að sjá fjölskyldur, vini og ættingja hlaupa saman og hjálpast að við að komast yfir hindranir, vaða yfir tjarnir og læki, klifra yfir net og veggi og bókstaflega hafa drullugaman að öllu brasinu. 

Fyrirkomulag hlaupsins var með þeim hætti að við skráningu í hlaupið fengu þátttakendur úthlutað tíma. Tíu þátttakendur voru ræstir út með 2 mínútna millibili frá kl. 10:00 og út daginn. 

Eins og myndirnar hér að neðan bera með sér var gríðarleg gleði á viðburðinum alveg frá því fyrsti hópur var ræstur og þar til yfir lauk.

Fleiri myndir úr Drulluhlaupi Krónunnar er hægt að skoða á Facebook.

Öll mega deila myndum að vild.

Fleiri myndir úr Drulluhlaupi Krónunnar eru hér!