Fara á efnissvæði
05. desember 2024

Katrín: Sjálfboðaliðum má ekki fækka

Katrín Birta Björgvinsdóttir er öflugur sjálfboðaliði hjá UMF Sindra. Hún vinnur á hjúkrunarheimili ásamt því að læra fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Hennar helstu áhugamál eru tónlist, að vera með góðu fólki og að æfa blak.

Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki í íþróttahreyfingunni hér á landi.

Sjálfboðaliðar vinna óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Framlag þeirra er ómetanlegt en því miður oft og tíðum ekki metið að verðleikum. En hvað er það sem knýr sjálfboðaliða áfram að gefa af sér án þess að ætlast til þess að fá neitt í staðinn?

Við tókum á tal harðduglega sjálfboðaliða vítt og breytt um landið og fengum innsýn inn í þeirra starf. Hér fáum við að heyra reynslu þeirra af sjálfboðaliðastarfi og hver hvati þeirra er til að halda áfram að sinna starfi sínu sem sjálfboðaliðar. 
 

Takk sjálfboðaliðar!

Hvernig sjálfboðaliðastarfi sinnir þú helst? 
„Ég sit í stjórn blakdeildar Sindra og er fjölmiðlafulltrúi knattspyrnudeildar Sindra. Ég sé um allt samfélagsmiðlaefni deildarinnar, sýni frá leikjum, bý til leikskrár, kynni leikmenn og alls konar skemmtilegt.“

Hvers vegna ákvaðst þú að gerast sjálfboðaliði? 
„Stjórn knattspyrnudeildarinnar hafði samband við mig til að auglýsa deildina og sjá um samfélagsmiðlana í febrúar 2023. Þau langaði að leyfa Sindrafólki að sjá alla vinnuna sem á sér stað innan knattspyrnunnar og eru margir sem vilja sjá frá því. Ég ákvað að prófa þetta og hef ekki hætt síðan. Þetta er góð reynsla í bankann, sérstaklega þar sem ég er að læra fjölmiðlafræði. Ég er enn þá í þessu því ég hef auðvitað gaman af þessu en svo er félagsskapurinn líka mjög góður, ég er búin að kynnast fullt af fólki og það er ótrúlega gott að vinna í kringum alla. Síðan kom ég mér einhvern veginn í stjórn blakdeildarinnar og þar er félagsskapurinn alls ekki síðri. Ég hef mikinn áhuga á blaki, langaði að prófa eitthvað nýtt og koma að því að skipuleggja starfið.“

Hvað er það sem drífur þig áfram sem sjálfboðaliði? 
„Það er auðvitað vinna en á sama tíma mjög gefandi að vera sjálfboðaliði, að gefa af sér gefur manni svo margfalt til baka. Þetta er reynsla og lærdómur sem mun örugglega koma að góðum notum seinna meir. Maður veit að öll vinnan er til góðs og skilar sér vonandi út í samfélagið.“

Getur þú lýst eftirminnilegri upplifun sem sjálfboðaliði?
Eftirminnileg upplifun var klárlega það að halda 90 ára afmæli Sindra þann 1. desember síðastliðinn. Ég sat þar í afmælisnefnd, við skipulögðum alls konar skemmtilegt fyrir daginn og hann heppnaðist mjög vel. Það var ótrúlega gaman að sjá svona marga koma saman og fagna félaginu okkar allra.

Hverjar eru áskoranir í starfi sjálfboðaliða? 
„Þetta tekur auðvitað oft mikinn tíma og getur verið erfitt þegar allt annað er í gangi líka, vinna, nám, lífið, o.s.frv. en ávinningurinn er svo miklu meiri, það gefur miklu meira en það tekur. Þetta er vanmetið starf sem svo margir vinna en það væri ekkert íþróttastarf að ráði án þess. Allir sjálfboðaliðar vinna að sama markmiði þó að það sé fyrir mismunandi deildir. Allt er þetta fyrir Sindra.“

Hver er ávinningur þess að vera sjálfboðaliði? 
„Hvar á ég að byrja? Maður lærir ótal margt, að vinna með mismunandi fólki og við mismunandi aðstæður. Fyrir ungt fólk, þá lítur auðvitað vel út á ferilskránni að hafa þessa reynslu en það er líka rosa gott fyrir sjálfsmyndina. Að vita að maður sé að gera eitthvað gott og vel er ómetanlegt.“

Ertu með skilaboð til þeirra sem hafa áhuga á að sinna sjálfboðaliðastarfi? 
„Ég mæli bara innilega með þessu! Ég flutti á Höfn árið 2020 í miðjum heimsfaraldri og kynntist því ekki mörgum fyrsta árið. Þetta er ótrúlega góð leið til að komast inn í samfélagið og kynnast fólki. Knattspyrnudeildin tók mjög vel á móti mér, blakdeildin sömuleiðis og ég hef eignast vini þar fyrir lífstíð.“

Þín ráð til annarra félaga til þess að fjölga sjálfboðaliðum? 
„Félögin verða öll að halda vel utan um starfið fyrst og fremst. Þetta er svo ótrúlega mikilvægt starf og þarf að hlúa vel að því, sjálfboðaliðum má ekki fækka. Það á ekki að vera erfitt að fá fólk í stjórn eða sinna hinu og þessu. Mér finnst að allir ættu að vera til í að hjálpa til en það er ekki svoleiðis, því miður. Margar hendur vinna létt verk hefur maður heyrt margoft en það er nákvæmlega þannig. Til þess að fá fólk inn þurfa félögin að gera þetta eftirsóknarvert starf og þá þarf góða umgjörð utan um það.“