Fara á efnissvæði
03. ágúst 2017

Keppni hófst með golfi

Fyrsti dagur Unglingalandsmóts UMFÍ hófst með keppni í golfi í hæglætisblíðu á Ekkjufellsvelli á Egilsstöðum í dag. Stemningin á Egilsstöðum er afskaplega góð og bæði þátttakendur og gestir Unglingalandsmótsins að flykkjast í bæinn. Veðrið á Egilsstöðum er afskaplega gott, stillt og níu gráður.

Félagar í Björgunarsveitinni Jökull sjá um öryggisgæslu á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Þeir taka á móti gestum sem tjalda á tjaldstæðinu áður en þeir fara í mótaskráninguna til að taka á móti mótsgögnum, plastarmbandi fyrir keppendur mótsins, nýjasta tölublað tímarits UMFÍ og fleira sem tengist Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum.

Eins og gestir Unglingalandsmóta UMFÍ þekkja þá er tjaldsvæðum skipt niður eftir sambandsaðilum og myndast ætíð þar heilmikil og góð stemning.

Tjaldsvæðið er ókeypis fyrir mótsgesti og fjölskyldur þeirra en greitt er fyrir afnot af rafmagni. Tjaldsvæðið er í göngufæri við aðalkeppnissvæðið.

Tjaldsvæðin eru á túni Egilsstaðabænda, á milli Egilsstaða og Fellabæjar. Mótsgestir sem koma að norðan fara í gegnum Fellabæ, yfir Lagarfljótsbrú og beygja til vinstri inn afleggjarann að flugvellinum fyrir stærra tjaldsvæðið, en næst til vinstri fyrir það minna.

Biðjum þátttakendur að mæta fyrst í Egilsstaðaskóla til að ná í gögn og fara síðan á tjaldsvæðið sem er við Egilsstaðaflugvöll.

UMFÍ minnir mótsgesti á að virða tjaldbúðareglur á meðan Unglingalandsmótinu stendur. Tjaldbúðareglur má nálgast hér.

Hér má sjá nokkrar myndir af fyrsta degi Unglingalandsmótsins á Egilsstöðum.