Fara á efnissvæði
06. nóvember 2017

Kjarni ungmennafélagsandans á vel við í íþróttum

„Ungmennafélög geta bætt siðferði í íþróttum,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ. Hann var í pallborði á ráðstefnunni Ríkir gott siðferði í íþróttum? sem haldin var í Háskóla Íslands á laugardag, 4. nóvember. Á ráðstefnunni kom fram að veðmáli á íþróttaleiki hafi aukist mikið og sé orðið hægt að veðja á nánast hvað sem er í eintökum leikjum. Það bjóði hættunni heim.

Haukur sagði mikið af börnum og ungmennum hefja feril sinn í íþróttum hjá ungmennafélögum. Upplagt sé að nýta krafta félaganna til að bæta siðferði í íþróttum og halda uppi góðum gildum íþrótta.

Heimspekingurinn Vilhjálmur Árnason, prófessor við hugvísindasvið Háskóla Íslands, sagði Ungmennafélagsandann einmitt sennilega aldrei eiga betur við en einmitt nú. Hann hafi stundum þótt hallærislegur. Kjarni ungmennafélagsandans sé hins vegar sá að viðhalda góðu siðferði í íþróttum.

 

Mörg félög innleiða Sýnum karakter

Á ráðstefnunni, sem haldin var á vegum Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, voru kynntar frumniðurstöður Guðmundar Sæmundssonar, fyrrverandi aðjúnkts við Menntavísindasvið skólans. Guðmundur sagði á ráðstefnunni að niðurstöðurnar verði kynntar betur síðar.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, setti ráðstefnuna. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt þar erindi um siðferði í íþróttum og rifjaði upp ýmis dæmi um bæði góðar hliðar íþrótta og slæmar.

Sabína Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ, var með erindi á ráðstefnunni og fjallaði þar um verkefnið Sýnum karakter, samstarfsverkefni UMFÍ og ÍSÍ. Í erindi sínu sýndi Sabína myndir af Múlan, Bangsímon, Tomma í Tomma og Jenna, Mary Poppins, Kjartani galdrakarli úr Strumpunum og fleirum og velti fyrir hver þeirra væri góður karakter og á hvaða hátt þeir væru það sem féllu undir skilgreininguna.

Sabína sagði hægt að þjálfa góðan karakter. „Þeir koma sterkir til baka, hafa óbilandi trú á sjálfum sér og eiga auðvelt með að einbeita sér og verða hluti af samfélaginu,“ sagði hún og fór yfir það hvernig íþróttafélög nýta verkfærin á vefsíðu Sýnum karakter og hvernig þau innleiða og nýta tólin sem þar er að finna í starfi sínu. Dæmi um það er körfuknattleiksdeild F.Su á Selfossi og HK í Kópavogi.

Félögunum fjölgar sífellt og bætast fljótlega tvö við í viðbót sem nýta Sýnum karakter í starfi sínu.

 

 

Ýmislegt gengur gegn góðu siðferði

Guðmundur segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fengið áhuga á því að rannsaka siðferði í þróttum vegna þess að sér hafi fundið st umfjöllun í kringum íslensk íþróttalið stundum ganga gegn góðu siðferði. „Maður hefur stundum heyrt í umfjöllun um íslensk lið að það hafi verið klókt hjá leikmanni að brjóta eða í lagi að svindla þegar það hagnast íslenskum liðum,“ segir hann.

Guðmundur segir niðurstöðurnar að mörgu leyti áhugaverðar.

„Fólk var mjög ákveðið í skoðunum sínum um misrétti milli kynja, það voru einungis 4% sem fannst í lagi að konur fengju verr greitt en karlar,“ segir Guðmundur og bætir við að fólki hafi auk þess verið afar umhugað um kjör fatlaðs íþróttafólks. „Samkvæmt rannsókninni er fólk afar andsnúið hvers konar mismunun. Fólk var mjög meðvitað um lægri greiðslur til fatlaðra íþróttamanna og vonaðist til þess að það myndi breytast.“

Í rannsókninni spurði Guðmundur þátttakendur 40 spurninga sem tengdust siðferði í íþróttum. Meðal þess sem fram kom í niðurstöðunum var mikill stuðningur við aukið fjármagn í íþróttum en fólk var samt sem áður mótfallið auglýsingum á byggingum og leikvöllum íþróttafélaganna. Guðmundur segir miklar andstæður í svörum fólks. „Það er hlynnt því að fá meira fé inn í íþróttirnar en er á sama tíma mjög andsnúið því að fyrirtækin fái að leggja nafn sitt við byggingar og annað sem snertir liðin,“ segir Guðmundur.