Fara á efnissvæði
13. ágúst 2021

Klappstýrur hvattar áfram

Hvatningarverðlaun UMSK voru veitt í fyrsta sinn í vor. Fyrsta liðið til að hljóta verðlaunin var hópur klappstýra frá Litháen. Forsprakki hópsins vonast til að fleiri klappstýrulið líti dagsins ljós enda sé þessi viðbót við körfubolta afar vinsæl um allan heim.

„Það kom okkur mjög á óvart að fá hvatningarverðlaun UMSK því að það er svo stutt síðan við byrjuðum. En um leið hvetur þetta okkur áfram því að eigum okkur stóra drauma,“ segir Ieva Prasciunaite, dansari og stofnandi klappstýruliðs íþróttafélagsins Stál-úlfs í Kópavogi.

 

 

Hvatningarverðlaun UMSK geta hlotið aðildarfélög, deildir innan aðildarfélaga eða einstaklingar innan aðildarfélaga UMSK, fyrir eftirtektarverð og framsækin verkefni sem skara fram úr eða fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Stjórn UMSK var sammála um að veita klappstýruliði Stál-Úlfs verðlaunin í ár fyrir nýja og skemmtilega viðbót við keppnishald félagsins.

 

Hefur dansað alla ævi

Ieva er fædd í Litháen og æfði þar dans frá barnsaldri. Í Litháen dansaði hún um árabil í klappstýruliði og hafði það að atvinnu. Hún náði langt enda klappstýrudansar mjög vinsælir um allan heim en hafa aldrei náð fótfestu hér á landi. Klappstýrurnar sjá öðru fremur um að halda uppi stemningunni á leikjum og bjóða upp á heilmikla skemmtun.

Körfubolti og klappstýrulið eru sérstaklega vinsæl í Litháen.

Ieva dansaði fyrir körfuknattleiksliðið Lietkabelis frá bænum Panevėžys, heimabæ Ievu, og spilaði í efstu deild í Litháen. Hún hætti dansinum fyrir nokkrum árum þegar hún flutti með kærasta sínum til Noregs. Þaðan komu þau hingað til lands fyrir tveimur árum.

Ieva setti klappstýrudansskóna á hilluna í Noregi. Þegar hingað var komið hafði gleðin fyrir dansinum vaknað á ný.

Ieva fór því að leita upplýsinga um klappstýrulið á Íslandi. En þar var ekki um auðugan garð að gresja.

„Mér fannst hafa liðið mjög langur tími frá því að ég var að dansa í Litháen og þar til ég flutti til Íslands. Það er svo erfitt að hætta því sem maður elskar að gera. Mig langaði svo mikið til að fara að dansa aftur og fór að leita að klappstýruliðum á Íslandi. Ég fann eitt! Það voru Valkyrjurnar. En gallinn var að þær skemmtu á leikjum íslenska ruðningsliðsins Einherja, sem leikur amerískan fótbolta en ekki körfubolta. Svo voru þær líka að hætta,“ segir hún.

 

Allir koma og prófa

Ieva lét ekki deigan síga þótt leit hennar að klappstýruhópi hafi ekki borið árangur.

„Í byrjun árs 2020 hafði ég samband við Algirdas Slapikas, stofnanda félagsins, og spurði hvort hann vissi um fleiri klappstýrulið á Íslandi og hvaða mót væru í gangi, af því að ég vissi ekki mikið um íþróttir á Íslandi. Hann var mjög áhugasamur af því að hann þekkir klappstýrudansa og hjálpaði með allt. Hann á ekki síður hlut í hvatningarverðlaununum en við,“ segir Ieva og heldur áfram: „Ég ákvað að stofna minn eigin hóp og setti auglýsingu á grúppu Litháa á Íslandi á Facebook. Þar sagðist ég vera að leita að stelpum í hópinn. Aldur var engin fyrirstaða og reynsluleysi ekki heldur. Allar stelpur, sem höfðu áhuga, máttu koma og prófa,“ segir Ieva.

Þetta skilaði árangri og nú hittast ellefu konur frá Litháen, á aldrinum 20 til 38 ára, 3–4 sinnum í viku til að æfa klappstýrudansa. Ieva og sumar aðrar eru lengra komnar, hafa dansað hjá klappstýruliðum í Litháen, æft dans eða fimleika. Aðrar eru með minni reynslu en þær langaði til að taka þátt í skemmtilegri samveru með löndum sínum.

„Þessar listir eru ekki auðveldar og æfingarnar krefjandi. En við leggjum mikið á okkur, sérstaklega þær sem hafa ekki dansað áður. Við leggjum mikið á okkur því að það er svo fallegt og skemmtilegt þegar við komum fram á leikjum Stál-úlfs,“ segir Ieva. Hópnum tókst aðeins að koma þrisvar fram áður en allt íþróttastarf var lagt niður í október árið 2020 til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Þess vegna hafi þeim ekki tekist að festa sig almennilega í sessi og fólk ekki fengið að sjá þessi skemmtilegu atriði.

Ieva segir konurnar í klappstýruhópnum eiga sér stóra drauma og vonar að þeir verði að veruleika þegar íþróttastarf kemst í gang á nýjan leik.

„Við viljum stækka hópinn, höfða til fleiri kvenna frá fleiri löndum og setja saman fjölþjóðlegan klappstýruhóp. En svo eru margir að bíða eftir því að við komum aftur fram – og þá verðum við tilbúnar!“ segir Ieva Prasciunaite í klappstýruhópnum.

 

Viltu verða klappstýra?

Klappstýruhópurinn vinnur nú að því að fjölga meðlimum og hefur auglýst eftir fleiri þátttakendum. Nýir meðlimir hópsins þurfa að vera 18 ára eða eldri og elska að dansa. 

Allar upplýsingar má nálgast með því að senda póst á netfangið cheerleadersiceland@gmail.com.

Allar myndirnar með þessari grein voru teknar á æfingu klappstýruliðsins. 

Umfjöllunin og myndirnar birtust í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Allt blaðið er hægt að lesa hér.