Fara á efnissvæði
04. janúar 2024

Klifur er nýjasta sportið á Ísafirði

Bjartur Týr Ólafsson og Björgvin Hilmarsson hamingjusamir í frumferð sinni á leiðinni Googooplex (WI4, AD+, 340 m). Klifrað upp úr Bakkahvilft í Hnífsdal og upp á Þórólfsgnúp.

„Klifur er ekki síður andleg þjálfun en líkamleg. Við klifur notar fólk í raun flesta sína vöðva, sem gerir þessa íþrótt mjög hentuga til að halda sér í góðu formi. Síðan þarf útsjónarsemi, þolimæði, frumleika og oft þor og áræðni til að ná markmiðum sínum,“ segir Björgvin Hilmarsson, formaður Klifurfélags Vestfjarða, sem er aðildarfélag Héraðssambands Vestfirðinga (HSV).

Björgvin flutti með fjölskyldu sinni á Ísafjörð haustið 2019 og þá einungis til að búa þar einn vetur. 

„Það endaði svo með að við ílengdumst. Dætur okkar, 8 og 13 ára, eru báðar að klifra á fullu og ég var sjálfur mikið með þær í Klifurhúsinu í Reykjavík áður en við fluttum. Þær sögðu að það eina sem vantaði á Ísafjörð væri inniklifuraðstaða,“ segir Björgvin, sem fór strax í að skoða möguleikana fyrir klifur á Ísafirði.

 

Klifur í 24 ár

Björgvin er langt í frá nýgræðingur í því að fóta sig í fjallaklifri. Hann hefur klifrað í um 24 ár, bæði hér á landi og víða erlendis, í klettum sem og ís. Hann hefur þegar opnað tvö útiklettaklifursvæði á Vestfjörðum sem eru með boltuðum leiðum og fleiri möguleikar eru í boði. Einnig er mikið hægt að stunda ísklifur á svæðinu.

Á Ísafirði hefur lengi verið hópur fólks með vonir um að byggja upp inniklifuraðstöðu, en aldrei fannst almennilegt húsnæði og meiri drifkraft vantaði. „Inniklifur er oft það sem fólk byrjar á að stunda og leiðir það svo í útiklifur. Einn daginn kíktum við Óliver Hilmarsson vinur minn inn í gamla skátaheimilið hér á Ísafirði og áttuðum okkur á að þar væri hægt að setja upp klifuraðstöðu. Ég dreif mig í að undirbúa stofnun Klifurfélagsins svo að við gætum farið að safna styrkjum,“ segir Björgvin. Haustið 2022 voru komnir einhverjir peningar í kassann og fóru Björgvin og Óliver á fullt að smíða klifurveggi inn í skátaheimilið. 

„Rýmið sem við höfum er ekki ýkja stórt en við reynum að nýta það vel. Við erum auðvitað þakklát skátafélaginu hér fyrir að leyfa okkur að nýta rýmið í þetta en það er líka gaman að geta glætt þetta hús lífi að nýju,“ bætir Björgvin við. 

Nokkur fyrirtæki og einstaklingar á svæðinu hafa stutt fjárhagslega við bakið á félaginu. „Fremst í flokki er vestfirska ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures. Rúnar og Nanný, sem þar stjórna, eru helstu bakhjarlar klifuraðstöðunnar. Við vonum að einn góðan veðurdag sjái bærinn sér síðan fært að styðja við verkefnið,“ segir Björgvin, sem hefur víða sótt um styrki. Öll vinna við inniklifuraðstöðuna er sjálfboðastarf og drifin áfram af ástríðu þeirra dsem að því koma.

Fyrir tveimur árum flutti Hjördís Björnsdóttir á Ísafjörð, en hún hefur kennt klifur í Klifurhúsinu í Reykjavík. „Það var frábært að fá hana hingað til liðs við okkur,“ segir Björgvin. 

 

Klifur fyrir alla

Áhuginn á klifri á Ísafirði hefur komið vel í ljós eftir að klifuraðstaðan innandyra fór að líta dagsins ljós. Klifurfélagið hefur verið með opna daga og haldið námskeið fyrir börn. „Börnin eru mjög áhugasöm og hafa gaman af þessu. Haldin hafa verið námskeið fyrir grunnskólabörn í 3. og 4. bekk ásamt sumarnámskeiðum síðastliðið sumar sem tókust mjög vel,“ segir Björgvin. Eins og er eru ekki komnir fastir opnunartímar en það er á planinu eftir áramót ásamt fleiri námskeiðum og ýmsum viðburðum fyrir alla aldurshópa.

„Eitt af því sem er gott við að hafa klifuraðstöðu á svæðinu er að þá opnast eitthvað nýtt fyrir þá sem eru ekki fyrir þessar hefðbundnu hópíþróttir. Það er frábært að geta virkjað þessi börn sem annars væru kannski ekki að stunda íþróttir,“ segir Björgvin. 

Klifur hentar öllum aldurshópum og bætir Björgvin við að ekki einungis hafi börnin gaman af þessu heldur sé oft auðveldara að byrja að stunda klifur á fullorðinsaldri en margar aðrar íþróttir, til dæmis hraðar boltaíþróttir. „Í klifrinu er hægt að stjórna álagi mjög vel og hver og einn getur verið á eigin forsendum,“ segir Björgvin. Erlendir stúdentar í Háskólasetrinu á Ísafirði hafa til dæmis verið duglegir að nýta aðstöðuna.

„Maður finnur fyrir því að ekki allir vita um hvað þetta klifur snýst og þess vegna er kannski erfitt að sannfæra fólk um hversu jákvætt þetta starf er,“ segir Björgvin.

Allt í nýjasta tölublaði Skinfaxa

Viðtalið við Björgvin er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ.

Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.

Lesa Skinfaxa á umfi.is

Lesa Skinfaxa á issuu.com

Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem á erindi við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna þá er um að gera og senda okkur línu á umfi@umfi.is

Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið það á umfi.is.