Fara á efnissvæði
02. apríl 2020

Kristrún er nýr framkvæmdastjóri Aftureldingar

Kristrún Kristjánsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar í stað Jóns Júlíusar Karlssonar sem mun í sumar taka við starfi framkvæmdastjóra Ungmennafélags Grindavíkur.

Kristrún kemur til starfa frá Deloitte þar sem hún var verkefnastjóri í fjármálaráðgjöf en áður starfaði hún sem sérfræðingur hjá Kauphöll Íslands. Hún hefur lokið MBA gráðu í fjármálum og alþjóðaviðskiptum og BSc prófi í hagfræði auk prófs í verðbréfaviðskiptum.

Fram kemur á vef Aftureldingar að Kristrún þekkir vel til starfs félagsins. Hún hafi síðustu ár verið virk í starfi félagsins vegna íþróttaiðkunar barna sinna og hinna ýmsu sjálfboðaliðastarfa þeim tengdum. Síðustu fjögur ár hefur Kristrún setið í aðalstjórn félagins og verið varaformaður þess síðastliðin tvö ár. Hún er Reykvíkingur en hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í Mosfellsbæ frá árinu 2004. Eiginmaður Kristrúnar er Gunnar Fjalar Helgason og eiga þau þrjú börn sem öll æfa hjá Aftureldingu.

Kristrún tekur formlega til starfa hjá Aftureldingu 15. apríl.