19. október 2021
Krísur og allskonar gagnlegar leiðir eru aðalstefið í nýjasta tölublaði Skinfaxa
Nýjasta tölublað Skinfaxa, tímarit UMFÍ, er komið út. Blaðið er stútfullt af spennandi og fræðandi efni um allskonar sem er að gerjast innan ungmennafélagshreyfingarinnar um allt land.
Á meðal efnis í blaðinu:
- Öxfirðingar lögðu niður nokkur óvirk félög. Íþróttafélagið Þingeyingur var stofnað í staðinn. Rætt við Róbert Karl Boulter, formann nýs félags.
- Íþróttafélagið Öspin hefur keypt hokkíborð fyrir blinda. Þetta er snarpur leikur fyrir miklu fleiri! Rætt er við Helgu Hákonardóttur hjá Öspinni um borðið.
- Hverjar eru þessar miklu breytingar á styrkjaumhverfi íþróttafélaga sem taka gildi í nóvember. Fjallað er um málið í Skinfaxa.
- Ungmennafélagar frá Langanesi eru að gera gott mót um allt land á allskonar vettvangi. Ungmennafélag Langnesinga fylgist með sínu fólki og hrósar þeim á Facebook.
- Halldóra Kristín Unnarsdóttir er skipstjóri og uppistandari frá Rifi á Snæfellsnesi. Hún er af sambandssvæði HSH. Hún og Ingveldur Gröndal eru nýju tómstunda- og félagsmálafræðingarnir í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni.
- Liðsmenn Hamars í Hveragerði náðu eftirtektarverðum árangri í blaki á þessu ári. Körfuknattleiksdeild Þórs í Þorlákshöfn gerði það líka. Bæði félögin eru á HSK-svæðinu. Rætt er við þær Jóhönnu Margréti Hjartardóttur, formann körfuknattleiksdeildar Þórs, og Barböru Meyer, formann blakdeildar Hamars, í Skinfaxa.
- Þúsundir krakka skemmta sér í Skólablaki.
- Nýtt fólk hjá sambandsaðilum UMFÍ.
- Lærdómur að vera sjálfboðaliði
- Mikil ásókn í rafíþróttir hjá Þór á Akureyri.
Krísur hjá félögum og leiðir til úrlausnar
- Krísa kom upp hjá Hnefaleikafélagi Kópavogs fyrir ári. Kjartan Valur, varaformaður félagsins, ræðir um málið og leiðirnar sem hjálpuðu.
- Íþrótta- og æskulýðsfélög vinna saman að gerð samræmdrar viðbragðsáætlunar vegna atvika sem geta komið upp í starfi félaga.
- Mikill áhugi á námskeiðinu Verndum þau hjá Æskulýðsvettvanginum.
- Brot stjórnenda geta haft áhrif á félagasamtök í áraraðir, að sögn Jeannie Fox, prófessors í þriðja geiranum.
- Guðmundur í Fjölni segir eina tilkynningu um ofbeldi einni of mikið.
- Brotamálum hefur fjölgað mikið hjá ÍBR.
Og svo er margt, margt fleira í blaðinu.