Kvittað upp á Unglingalandsmót UMFÍ

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, Benedikt Jónsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, skrifuðu undir samning um Unglingalandsmót UMFÍ í gær. Mótið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Eins og myndirnar bera með sér gekk hríð yfir þegar þeir skrifuðu undir samninginn á þrettándagleði íþróttafélagsins Hattar í gær.
Mótið verður haldið í samstarfi við Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) og Múlaþing og er þetta þriðja skiptið sem mótið verður haldið á Egilsstöðum.
Unglingalandsmót UMFÍ er íþróttahátíð fyrir alla fjölskylduna. Þátttakendur 11 til 18 ára geta þar keppt í ýmsum greinum á daginn og skemmt sér með vinum og fjölskyldum á kvöldin. Mikill fjöldi fólks eða allt upp undir tíu þúsund manns mætir á hvert mót, sem ætíð er haldið um verslunarmannahelgi.
Mynd er þegar að komast á skipulag mótsins á Egilsstöðum og er verið að skipta mótsnefnd. Formaður hennar verður Jónína Brynjólfsdóttir, forseti bæjarstjórnar.
Allar upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ verður að finna á vefsvæði mótsins:
