Fara á efnissvæði
20. júní 2022

Kynning á Ánægjuvoginni

Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1998 í rannsókninni Ungt fólk. Í Ánægjuvoginni eru svör við spurningum tengdum ánægju í íþróttum og íþróttaiðkun ungs fólks.

Dæmi um spurningar er: Hversu ánægð/ánægður ertu með íþróttafélagið, þjálfarann og aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu? Einnig eru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu, svefn og neyslu orkudrykkja.

Nú í ár var tekin ákvörðun um að gefa skýrslur Ánægjuvogarinnar út eftir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi í stað þess að gefa út skýrslu fyrir hvert íþróttahérað fyrir sig. Þannig er hægt að skoða niðurstöður Ánægjuvogarinnar í samanburði við lýðheilsuvísa embættis landlæknis. Að auki fær hvert félag með fleiri en 15 iðkendur úr áðurgreindum árgöngum sérstakt blað með lykiltölum fyrir félagið. Í nokkrum tilvikum þar sem tilskilinn fjöldi náðist ekki voru útbúnar skýrslur fyrir sveitarfélagið.

UMFÍ og ÍSÍ efna til kynningar á helstu niðurstöðum þriðjudaginn 21. júní í þjónustumiðstöð UMFÍ í Sigtúni 42 í Reykjavík á milli klukkan 11:30 – 13:00.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá R&g og kennari við Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, kynnir þar niðurstöður Ánægjuvogarinnar og mun svara eftirfarandi spurningum. Hvernig stendur íþróttahreyfingin sig? Hvar getum við bætt okkur? Hvernig getum við nýtt niðurstöðurnar? Svo er auðvitað öllum frjálst að spyrja.

Skráning fer fram hér.