Kynning á Ánægjuvoginni
Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1998 í rannsókninni Ungt fólk. Í Ánægjuvoginni eru svör við spurningum tengdum ánægju í íþróttum og íþróttaiðkun ungs fólks.
Dæmi um spurningar er: Hversu ánægð/ánægður ertu með íþróttafélagið, þjálfarann og aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu? Einnig eru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu, svefn og neyslu orkudrykkja.
Nú í ár var tekin ákvörðun um að gefa skýrslur Ánægjuvogarinnar út eftir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi í stað þess að gefa út skýrslu fyrir hvert íþróttahérað fyrir sig. Þannig er hægt að skoða niðurstöður Ánægjuvogarinnar í samanburði við lýðheilsuvísa embættis landlæknis. Að auki fær hvert félag með fleiri en 15 iðkendur úr áðurgreindum árgöngum sérstakt blað með lykiltölum fyrir félagið. Í nokkrum tilvikum þar sem tilskilinn fjöldi náðist ekki voru útbúnar skýrslur fyrir sveitarfélagið.
UMFÍ og ÍSÍ efna til kynningar á helstu niðurstöðum þriðjudaginn 21. júní í þjónustumiðstöð UMFÍ í Sigtúni 42 í Reykjavík á milli klukkan 11:30 – 13:00.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá R&g og kennari við Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, kynnir þar niðurstöður Ánægjuvogarinnar og mun svara eftirfarandi spurningum. Hvernig stendur íþróttahreyfingin sig? Hvar getum við bætt okkur? Hvernig getum við nýtt niðurstöðurnar? Svo er auðvitað öllum frjálst að spyrja.