Fara á efnissvæði
07. febrúar 2025

Kynntu áfanga um sjálfboðaliða fyrir norðan

„Þessi áfangi um störf sjálfboðaliða er virkilega spennandi og nálgunin áhugaverð,“ segir Óskar Þórðarson um fund sem fram fór á þriðjudag á vegum svæðisstöðva íþróttahéraðanna og íþróttahéraða á Norðurlandi eystra ásamt svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Vesturlandi og Guðmundu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Íþróttabandalags Akraness (ÍA).

 

Kynntu nám um störf sjálfboðaliða

Markmið fundarins var að kynna framhaldsskólaáfanga um störf sjálfboðaliða sem svæðisfulltrúarnir á Vesturlandi bjuggu til og hefur vakið mikla athygli. Ásamt fulltrúum úr íþróttahreyfingunni var skólastjórnendum fimm framhaldsskóla sem eru á Norðurlandi eystra boðið á fundinn. Gestir á fundinum voru allt frá Siglufirði til Húsavíkur en ásamt Óskari var Gunnhildur Hinriksdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ) á meðal gesta. Gunnhildur og Óskar eru bæði í tveimur hlutverkum, hún sem framkvæmdastjóri HSÞ og kennari við framhaldsskólann á Laugum en Óskar er formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) og kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga.

Óskar er spenntur fyrir áfanganum og samstarfinu og ætlar að kynna málið í stjórn UÍF og innan Menntaskólans á Tröllaskaga.

„Þessi áfangi mun grípa nemendurna og vekja þá væntanlega til umhugsunar um störf sjálfboðaliða af því að við þurfum yngri og fleiri sjálfboðaliða. Það getur höfðað til nemenda sem hafa hætt í íþróttum en haldið áfram starfi fyrir íþróttafélögin sem sjálfboðaliðar. Námið mun þess vegna skila sér í íþróttastarfið til langs tíma. Á Akranesi er námið þegar farið að skila árangri og nemendurnir farnir að taka virkan þátt í sjálfboðaliðastörfum innan félaga ÍA. Þetta er mjög spennandi verkefni,“ segir Óskar.

 

Samvinna skilar árangri

Þóra Pétursdóttir, annar tveggja svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Norðurlandi eystra, segir viðbrögð allra á fundinum hafa verið góð og umræður verið á þá leið að það sé gerlegt að setja áfangann eins og hann er byggður upp á Vesturlandi af stað á svæðinu. Eins ræddu fundargestir um afreksbrautir í framhaldsskólum eins og þekkist sums staðar á landinu. Nú sé boltinn hjá skólunum sem skoði hvort þau vilji taka næstu skref og bjóða upp á áfangann í sínum framhaldsskóla.

Heimsókn fulltrúa af Vesturlandi norður í land kviknaði þegar svæðisfulltrúarnir og nokkrir framkvæmdastjórar íþróttahéraða fóru í vinnuferð til Danmerkur undir lok síðasta árs.

„Það var mjög gagnleg ferð og þar var rætt um hvað við gætum gert til að vinna meira og betur saman,“ segir hún og bætir við að samstarf eins og þetta á breiðum grunni sé afar gott fyrir íþróttahreyfinguna og góður vettvangur fyrir framkvæmdastjóra til að spegla og ræða sameiginleg verkefni. Því var ferðin norður nýtt í samtal um verkefni íþróttahéraða eins og fjármál, stjórnun, stefnumótun og önnur verkefni sem koma inn á borð framkvæmdastjóra íþróttahéraða. Að lokum heimsóttu fulltrúar Vesturlands bogfimideild Íþróttafélagsins Akurs og fengu frábæra kynningu og kennslu frá Alfreð Birgissyni.

 

Lesa má meira um áfangann á umfi.is:

Bjuggu til áfanga um störf sjálfboðaliða

 

Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum.