Fara á efnissvæði
04. maí 2020

Lærðu mikið af því að vinna með ungmennum

Margrét og María dvöldu í tvær vikur í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni, í verknámi sínu í tómstunda- og félagsmálafræðum.

„Mig langaði í skemmtilegt vettvangsnám þar sem ég hefði nóg að gera í stað þess að sitja við tölvu allan daginn. Ég fór ekki í Ungmennabúðir UMFÍ þegar ég var yngri  en hafði heyrt svo góðar sögur frá þeim sem höfðu verið þar að mig langaði mikið til að koma,“ segir Margrét Nilsdóttir.

Margrét er nemandi á öðru ári í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands og dvaldi ásamt Maríu Dögg Elvarsdóttur, skólasystur sinni, í vettvangsnámi í Ungmennabúðum UMFÍ síðastliðið vor. Þær Margrét og María hafa báðar verið í tómstunda- og félagsmálastarfi en á ólíkum sviðum. Margrét hefur unnið í félagsmiðstöð en María hjá skátunum.

„Ég fór með vinum mínum í grunnskóla í skólabúðirnar á Reykjum og man enn hvað það var skemmtileg upplifun. Ég vildi vinna meira með börnum og vildi endilega fara á Laugarvatn þegar okkur stóð það til boða í háskólanáminu okkar,“ segir María og heldur áfram: „Þegar ég var á Reykjum velti ég því auðvitað ekkert fyrir mér hvað
væri á bak við alla leikina. Nú erum við búin að læra það og vitum af hverju við áttum að gera hitt og þetta.“ 

Þær Margrét og María höfðu nóg að gera í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Þær voru í búðunum í tvær vikur, komu á mánudegi og fóru svo á föstudegi eins og nemendurnir. Þær komu síðan aftur eftir helgina og voru út þá viku með öðrum nemendahópi. Þær tóku virkan þátt í starfinu í Ungmennabúðunum, skipulögðu útileiki og samskiptaleiki, og leiki í íþróttasal, svokölluðum speglasal, og kvöldvökur. Þær héldu dagbók tengda dvölinni og urðu að skila skýrslu til kennara síns að náminu loknu.
„Það voru alltaf að bætast við verkefni hjá okkur. En við lærum meira af því. Hér svo heimilislegt að okkur líður mjög vel,“ heldur María áfram. 

 

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Nýjasta tölublaðið - 1. tbl. 2020 - er aðgengilegt á vef UMFÍ.

Þú getur smellt hér og lesið allt blaðið: Lesa Skinfaxa

Fleiri myndir frá dvöl þeirra Margrétar og Maríu í Ungmennabúðum UMFÍ.