Fara á efnissvæði
16. apríl 2021

Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi í lok ágúst

„Við erum gríðarlega spennt að halda Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi í lok ágúst. Við teljum að þá verði búið að bólusetja stærstan hluta þjóðarinnar og öruggt að halda mótið. En að sjálfsögðu munum við gæta okkur í hvívetna og gæta fyllsta öryggis án þess að það komi niður á gleðinni,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ.

Ljóst er að ágúst verður þéttpakkaður mótamánuður og uppfullur af ungmennafélagsanda. Unglingalandsmót UMFÍ verður um verslunarmannahelgina og svo Landsmót UMFÍ 50+ dagana 27. – 29. ágúst. Mótið verður haldið með Ungmennasambandi Borgarfjarðar (UMSB) og sveitarfélaginu Borgarbyggð.

Öllum mótum og flestum viðburðum UMFÍ var frestað á síðasta ári, þar á meðal Landsmót UMFÍ 50+ og Unglingalandsmótið auk Íþróttaveislunnar. Síðasta Landsmót UMFÍ 50+ var í Neskaupstað sumarið 2019.

Ómar segir stjórn UMFÍ og Landsmóts nefnd UMFÍ 50+ binda vonir við að ástand til mótahalds verði orðið hagfellt í lok ágúst. „Við vonum að hægt verði að halda fjölmenn mót í samræmi við þær sóttvarnaaðgerðir sem verða mögulega í gildi í lok sumars. Aðstæður verða að sjálfsögðu metnar eftir því sem nær dregur mótinu í Borgarnesi og gripið til nauðsynlegra aðgerða ef þarf. Í lok ágúst verður vonandi aldeilis kominn tími til að gleðjast,“ segir hann.

 

UM LANDSMÓT UMFÍ 50+

Landsmót UMFÍ 50+  er blanda af íþróttakeppni og hreyfingu af ýmsum toga sem stuðlar að ánægju fólks á besta aldri til að njóta þess að hreyfa sig saman. Mótið hefur farið fram árlega víða um land síðan árið 2011 og er öllum opið sem verða 50 ára á þessu ári – og öllum eldri.

Í boði verður upp á keppni í fjölda greina. Þar á meðal eru boccía og ringó, fjallahlaup og auðvitað pönnukökubakstur ásamt mörgum fleiri greinum sem verða kynntar fljótlega til sögunnar.

Engin krafa er um að vera skráður í íþróttafélag til að geta tekið þátt í viðburðum UMFÍ.

Þátttökugjald á mótið er 4.900 krónur. 

 

Hér má sjá ýmsar myndir frá Landsmóti UMFÍ 50+ í gegnum tíðina