Landsmót UMFÍ 50+: Skráning opnar 15. maí

Gríðarlega flott mynd er komin á dagskrá Landsmóts UMFÍ 50+ sem fram fer á Siglufirði og Ólafsfirði dagana 27. – 29. júní. Eins og dagskráin lítur út í dag munu fjölmennustu greinar mótsins fara fram á Siglufirði á föstudeginum en allar hinar á Ólafsfirði.
Margar greinar
Á Siglufirði verður keppt í boccía og ringó föstudaginn 27. júní en í badmintoni og sundi í sama bæ daginn eftir. Á Ólafsfirði verður keppt í hinum greinunum tólf. Hinar greinarnar eru brennibolti, bridds, frjálsar íþróttir, golf, hlaupaskotfimi (biathlon), petanque, pílukast, pokavarp, pönnukökubakstur, pútt, skotfimi og stígvélakast.
Mótið hefst á fimmtudegi með keppni í boccía og ringó og fara hinar greinarnar fram yfir helgina.
Matar- og skemmtikvöld verður á laugardagskvöldið 28. júní og verður það í félagsheimilinu Tjarnarborg á Ólafsfirði. Boðið verður upp á góðan mat, skemmtiatriði, söng og dans.
Mót fyrir alla 50 ára og eldri
Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum.
Mótshaldari Landsmóts UMFÍ 50+ að þessu sinni er Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF) með stuðningi og í samstarfi við sveitarfélagið Fjallabyggð.
Í Fjallabyggð eru veitingastaðir, verslanir og góð íþróttaaðstaða. Á Ólafsfirði er gott íþróttasvæði í hjarta bæjarins, grasvellir, 25m útisundlaug, stórt íþróttahús, skotíþróttasvæði og golfvöllur. Á Siglufirði er stórt íþróttahús, 25m innisundlaug, golfvöllur og fleira.
Þátttökugjald verður 5.500 krónur og er innifalið í því þátttaka í öllum keppnisgreinum mótsins.
Skráning opnar 15. maí á umfi.is.


