Landsmóti UMFÍ 50+ lokið í Neskaupstað
Landsmóti UMFÍ 50+ lauk í Neskaupstað um tvöleytið í dag með síðustu greininni, sem fyrir löngu er orðin er klassísk. Það er stígvélakast sem felur í sér að þátttakendur kasti stígvéli eins langt og þeir geta. Keppt var í greininni á íþróttavellinum í Neskaupstað í úrvali af íslensku veðri, í gegnum súldarúða og smávegis rok brast öðru hverju á með brakandi sól og stillu.
Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í stjórn UMFÍ, sleit mótinu að stígvélakasti loknu. Um 300 þátttakendur voru á mótinu í Neskaupstað og skemmti sér í fjölda íþróttagreina alla helgina. Jafnframt var boðið upp á nýjungar á borð við Crossnet, sem hefur aldrei áður verið spilað á Íslandi. Á meðal annarra greina voru pílukast, hlaup, frjálsar íþróttir, ringó, boccía og bridds, svo eitthvað sé nefnt.
Á meðal þátttakenda á mótinu var Stefán Þorleifsson, 102 ára Norðfirðingur sem keppti í pútti. Honum var tekið fagnandi sem þjóðhetja væri á ferð þegar hann mætti í golfskálann til að hefja leik í morgun.
Kynnast nýjum greinum á mótinu
Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað var haldið í samstarfi við Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) og Fjarðabyggð.
Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, segir það lykilatriði hvað mót eins og þetta skilja eftir sig.
„Á mótinu hitti ég mikið af fólki sem prófaði íþróttagreinar í fyrsta sinn og fannst þær skemmtilegar. Það hafi áhuga á að reyna við sig áfram í greininni. Mótið leiðir greinilega til þess að skapa virkni og hreyfingu hjá fólki, bæði í heimabyggð og svo mætir það vonandi aftur á mót á vegum UMFÍ,“ segir hann.
Næsta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Borgarnesi í júní á næsta ári.
Hér má sjá nokkrar svipmyndir frá mótinu