Fara á efnissvæði
30. maí 2018

Landsmótið er íþróttaveisla fyrir alla 18 ára og eldri

„Landsmótið í Skagafirði í sumar er hlaðborð fyrir íþróttafólk, íþróttaveisla fyrir alla 18 ára og eldri sem vilja keppa eða prófa nýjar íþróttagreinar,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ. Hún og Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, voru tekin tali á sjónvarpsstöðinni N4 þegar hópur stjórnenda úr ungmennafélagshreyfingunni kíkti á atvinnulífssýninguna á Sauðárkróki um svipað leyti og vorfundur UMFÍ fór þar fram. Í viðtalinu er líka rætt við Klöru Helgadóttur, formann Ungmennasambands Skagafjarðar, og framkvæmdastjórann Thelmu Knútsdóttur.

Haukur segir Landsmótið með nýju sniði og öðruvísi en fyrri mót. Landsmótið sé fyrir sem flesta, ekki síst fólk sem ekki stundi afreksíþróttir. Hann segir Sauðárkrók henta mjög vel fyrir mót eins og Landsmótið og sé mikill styrkur í sjálfboðaliðunum sem taka ævinlega þátt í mótum UMFÍ.

Auður sagði skráningu hafa farið hratt af stað. Mikið sé um nýjar greinar og benti sérstaklega á brennibolta, hjólaskíðagöngu og biathlon sem hafi slegið í gegn á vetrarólympíuleikum og Norðmenn séu góðir í. Á Sauðárkróki verður ekki farið á gönguskíðum á milli skotstöðva heldur hlaupin stutt vegalengd og stoppað á ákveðnum stöðum og skotið af riffli í mark áður en haldið er aftur af stað.

Skráning er í fullum gangi á Landsmótið. Þátttökugjald er 4.900 krónur og þarf aðeins að greiða eitt gjald til að skrá sig í eins margar greinar og viðkomandi vill.

Á sama tíma fer fram Landsmót UMFÍ 50+ og Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum.