Fara á efnissvæði
12. desember 2018

Landsmótið verður aftur í júlí 2020

Stjórn UMFÍ hefur ákveðið að Landsmótið verði haldið á nýjan leik í júlí árið 2020. Það felur í sér að í upphafi árs 2019 verður skipuð nefnd sem mun hefja undirbúning Landsmótsins. Mikil ánægja var með mótið sem haldið var á Sauðárkróki í sumar.

Landsmót UMFÍ hafa verið haldin á nokkurra ára fresti frá árinu 1909. Í júlí í sumar var haldið Landsmót sem var með gjörbreyttu sniði frá því sem áður var. Landsmótið í sumar var opið öllum 18 ára og eldri hvort sem þeir voru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki.

Landsmótið á Sauðárkróki var sannkölluð íþróttaveisla. Það stóð í fjóra daga og gátu þátttakendur þar keppt í eða prófað næstum 40 íþróttagreinar á Sauðárkróki og skemmt sér alla daga við ýmislegt heilsutengt eða farið á dansleik og tónleika. Hádegisfyrirlestrar um eitt og annað tengt lýðheilsu voru alla dagana á Sauðárkróki.  

Rúmlega 1.000 þátttakendur voru skráðir á Landsmótið þegar það var haldið í fyrsta sinn með þessu breytta sniði á Sauðárkróki.

 

Fólk sækir í fjölbreytta hreyfingu

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, segir í leiðara Skinfaxa, tímarits UMFÍ, sem er væntanlegur, að alltaf fylgi því áhætta að færa þekkt verk eins og Landsmótið í nýjan búning. Haukur segir að ákveðið hafi verið að breyta mótinu til að koma til móts við löngun og þörf fólks til að hreyfa sig með fjölbreyttum hætti en opna á sama tíma faðminn fyrir jaðaríþróttum og nýju keppnisformi í mörgum íþróttagreinum.

Haukur segir Landsmótið lofa mjög góðu enda höfði það til breiðari hóps en fyrri landsmót. Nýjungarnar í lýðheilsu og skemmtilegri hreyfingu muni festast í sessi. Af þeim sökum leggi hann til að halda mótið á tveggja ára fresti í stað fjögurra eins og áður tíðkast.

 

Allar upplýsingar um síðasta Landsmótið er að finna á www.landsmotid.is

Hér má sjá nokkrar myndir frá Landsmótinu á Sauðárkróki í sumar