Langafi forsetans var mikill UMFÍ-maður (1)
Fjallað er um alþýðufræðarann og lýðháskólafrömuðinn Guðmund Hjaltason í Morgunblaðinu í dag undir liðnum Merkir Íslendingar.
Guðmundur fæddist á Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum 17. júlí árið 1853. Hann var styrktur til náms í í Vonheim-lýðháskólanum í Gausdal í Noregi. Hann var við norska og danska lýðháskóla í 12 ár, fyrst sem nemandi og síðar kennari.
Þegar Guðmundur sneri heim aftur að áeggjan Ungmennafélags Íslands ætlaði hann að stofna lýðháskóla. Guðmundur var hins vegar of langt á undan sinni samtíð og rættust áform hans ekki. Þess í stað hélt hann fyrirlestra um alla land á vegum ungmennafélagshreyfingarinnar.
Guðmundur lést 27. janúar árið 1919. Guðmundur hafði fyrir andlát sitt ritað sjálfsævisögu sína og gaf UMFÍ hana út í þakkarskyni fyrir alþýðufræðsluna árið 1923.
Guðmundur og Hólmfríður kona hans eignuðust þrjú börn. Þar á meðal Sigurveigu, móður Jóhannesar Sæmundssonar. Jóhannes var faðir Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og Guðmundur því langafi hans.
Guðni minntist langafa síns og starfa hans fyrir UMFÍ þegar hann tók á móti gestum frá UMFÍ á Degi sjálfboðaliðans á Bessastöðum í desember 2016.
Forseti Íslands hefur þegið boð UMFÍ að mæta á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.
Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmótið.
Hér eru ítarlegar upplýsingar um mótið.