Fara á efnissvæði
10. desember 2018

Langar þig í lýðháskóla?

Langar þig í lýðháskóla? UMFÍ veitir þeim styrki sem langar til að sjóndeildarhring sinn og prófa eitthvað alveg nýtt og spennandi. Umsóknarfrestur til að sækja um styrk stendur út næsta mánuðinn en hann rennur út 10. janúar 2019. 

UMFÍ veitir áhugasömum tvenns konar styrki vegna dvalar í lýðháskóla, annars vegar ferðastyrk og hins vegar dvalarstyrk.

Heildarupphæð ferðastyrks fer eftir fjölda umsókna. Dvalarstyrkur fer jafnframt eftir fjölda umsókna og dvalartíma hvers og eins, þ.e. styrkt er um ákveðna upphæð fyrir hverja viku.

Til þess að uppfylla kröfur um styrkinn þurfa umsækjendur að skila tveimur verkefnum.

 

Af hverju lýðháskóli?

UMFÍ og Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn gerðu með sér samstarfssamning um verkefni tengt námsdvöl íslenskra ungmenna í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið fjölbreytt.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn. Einnig tækifæri til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.

Ítarlegri upplýsingar um styrki UMFÍ í lýðháskóla

Umsóknareyðublað til að sækja um styrk

 

 

Nýtt skref sem breytti lífinu

Tónlistarmaðurinn Tómas Guðmundsson ákvað í bríaríi að skella sér í lýðháskóla á Sjálandi í Danmörku. Hann segist hafa lært mest á því að búa með öðrum sem séu í skóla til að læra um hugðarefni sín. 

 

„Þetta var algjör skyndiákvörðun. Félagi minn hafði farið út í þennan lýðháskóla ári fyrr og félagi okkar beggja árið 2012. Ég hafði gælt við að fara líka út en missti af því og vissi svo ekki hvað ég ætti að gera í vetur og vor. Í fyrra langaði mig til að breyta svolítið til, sótti þess vegna um í skólanum og borgaði staðfestingargjaldið. Síðan bara gleymdi ég þessu. Þegar ég fékk staðfestingu á að ég hefði komist inn í skólann áttaði ég mig á því að ég þyrfti að fara að safna á fullu. Ég gerði það, vann þrefalda vinnu, keyrði mig bókstaflega út og fór svo í skólann í vor,“ segir Tómas Guðmundsson, sem er 23 ára úr Ölfusinu á Suðurlandi og starfar sem tónlistarmaður.

 

Lærði hljóðblöndun

Þetta var í september árið 2017. Tómas fór út í janúar árið 2018 og var í skólanum í hálft ár. Skólinn, sem Tómas fór í, er Den Rytmiske Højskole, lýðháskóli á Sjálandi, sem einbeitir sér að kennslu í tónlist, hljóðblöndun og ýmsu sem tengist þessu sviði. Tómas segir námið samt ekki hafa aðeins snúist um tónlist. 

„Þetta var ótrúlega gefandi. Miklu meira en dorískir skalar, fimmfjórðutaktar eða multiband compression. Ég lærði rosalega mikið af fólki í skólanum, bæði nemendum og kennurum. Það mesta sem ég lærði var um sjálfan mig og á sjálfan mig,“ segir hann og bætir við að nemendur skólans búi saman í nokkrum húsum. Það hafi verið lærdómsríkt. 

„Það er heilmikið nám að læra að búa með ellefu manns í einu húsi. Þú færð engu ráðið og þarft að aðlagast. En á sama tíma er frábært að geta gert eitthvað sem maður elskar. Það er upplifunin sem er lærdómsrík,“ segir hann. 

 

Hélt hann væri of gamall

Tómas bendir á að áður en hann fór utan hafi hann velt aldri nemendanna fyrir sér. „Ég vissi ekki hvort ég væri of gamall eða hver meðalaldurinn væri. Mikið af krökkum fer í lýðháskóla eftir grunnskóla eða framhaldsskóla. En svo var aldursbilið mjög breitt og fólk sagði það ekki skipta neinu máli. Elsti nemandi skólans hefur verið 64 ára. Sá er farinn að vinna í skólanum. Fólk var líka að leita eftir ýmsu þar. Þarna var sem dæmi eðlisfræðingur sem vildi læra eitthvað nýtt. Hugarfarið í skólanum þarna þekkist ekki hér og þess vegna er mikilvægt að fólk fari í lýðháskóla til að upplifa það,“ segir Tómas.

Tómas segir reynsluna hafa haft svo góð áhrif á sig og hann hafi eignast svo mikið af nýjum vinum að næst á dagskrá er að flytja til Danmerkur. Hann ætlar utan í nóvember. 

„Ég get með sanni sagt að sú skyndilega ákvörðun sem ég tók, að flýja land og fara í lýðháskóla hafi verið besta ákvörðun mín,“ segir Tómas Guðmundsson.

 

Allt um lýðháskólana hér