Fara á efnissvæði
08. júní 2020

Lárus hjá Hamri: Viðburðir eins og Hengill Ultra hefur góð áhrif

„Þetta var alveg æðislega gaman um helgina, nóg að gera og allir í góðu skapi. Íþróttaviðburðir eins og Hengill Ultra hafa líka alveg svakaleg áhrif í Hveragerði, eins og öll sveitarfélög og bæjarfélög sem halda þá. Hér var öll gisting uppbókuð og veitingastaðir pakkaðir,“ segir Lárus Ingi Friðþjófsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hamars í Hveragerði. Hann og í kringum 30 félagar í deildinni unnu við Hengil Ultra sem fram fór í Hveragerði í níunda sinn um helgina og var það liður í fjáröflun körfuboltadeildar Hamars.

 

 

Lárus segir viðburði eins og Hengil Ultra ekki gerast af sjálfu sér og því sé frábært þegar skipuleggjendur leiti til íþróttafélaga við vinnuna.

„Við höfum unnið við mótið nokkrum sinnum áður. En eins og alltaf unnu sjálfboðaliðar í 3-4 tíma fram að vaktaskiptum. En sumir lögðu meira á sig. En svona viðburður gerist ekki af sjálfu sér,“ segir hann og bætir við að um heljarinnar törn hafi verið að ræða í heilan sólarhring.

Hamar í Hveragerði er aðildarfélag Héraðssambandsins Skarphéðinn (HSK), sambandsaðila UMFÍ.

 

Næstum 700 þátttakendur

Hengill Ultra er hluti af mótaröðinni Víkingar, sem haldin er í samvinnu við UMFÍ. Þetta er í fyrsta sinn sem mótaröðin verður haldin. Innan mótaráðarinnar eru annálaðir almenningsíþróttaviðburðir eins og KIA Gullhringurinn og SALOMON Hengill Ultra ásamt fjallahjólakeppninni Landsnet 32 og Eldslóðin. UMFÍ heldur utan um árangur þeirra sem taka þátt í öllum mótunum og afhendir þeim sem ná þeim áfanga verðlaun í lok sumars. Síðasti viðburðurinn verður utanvegahlaupið Eldslóðin og fer hún fram í Heiðmörk.

Á mótinu voru vel á 700 þátttakendur. Í 100 km utanvegahlaupið voru skráðir 29, 87 í 50 km hlaup og rúmlega 400 í 25 km hlaup.  

 

Á myndinni hér að ofan má sjá þegar Örvar Stein­gríms­son frá HK kom fyrst­ur i mark í 100 km hlaupinu á tímanum 12:47:31.