Fara á efnissvæði
12. desember 2017

Laufey segir mikinn kraft í HSH

„Það er kraftur í okkur og allt horfir til betri vegar hjá okkur. Við ætlum að rífa sambandið í gang fyrir allt íþróttafólkið okkar,“ segir Laufey Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH). Mikið var um að vera á héraðsþingi HSH í gærkvöldi. Ársreikningar síðastliðinna tveggja ára voru lagðir fram, íþróttamenn ársins valdir og starfsmerki UMFÍ afhent.

 

Fyrsta þingið í tvö ár

Sambandið hélt sitt fyrsta héraðsþings í tvö ár í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík í gærkvöldi, mánudaginn 11. desember. Þar var ný stjórn og varastjórn kosin. Hjörleifur K. Hjörleifsson var kosinn formaður ásamt öðru nýju stjórnarfólki. Ragnhildur Sigurðardóttir, sem sat í starfsstjórn HSH í fyrra var líka kosin í stjórnina ásamt Garðari Svanssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra HSH.

Laufey tók við sem framkvæmdastjóri af Garðari í október síðastliðnum. Hjörleifur K. Hjörleifsson, formaður aðalstjórnar Ungmennafélagsins Snæfells í Stykkishólmi, tók á sama tíma við sem formaður HSH. Áður hafði verið formannslaust hjá HSH í þrjú ár.

Laufey segir stemninguna hafa verið góða fyrir þingið og fleiri mætt en hún hafi gert ráð fyrir eða um 45 þingfulltrúar frá öllum aðildarfélögum HSH.

Á þinginu voru lagðir fyrir ársreikningar HSH fyrir árin 2015 og 2016 og þeir samþykktir. Þá var lögð fyrir ársskýrsla ársins 2016.

 

Verðlaun og viðurkenningar

Íþróttamaður ársins hjá HSH er Berglind Gunnarsdóttir, leikmaður meistaraflokks kvennaliðs Snæfells í körfuknattleik.

Þá veitti Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, Rán Kristinsdóttur starfsmerki UMFÍ.

Íþróttamenn ársins í völdum greinum og aðstandendur þeirra.