Fara á efnissvæði
02. apríl 2025

Laust starf svæðisfulltrúa á Vestfjörðum

Hefur þú brennandi áhuga á íþróttum og lýðheilsu og vilt hafa jákvæð áhrif á þitt nærumhverfi? Þrífst þú vel í síbreytilegu vinnuumhverfi og vinnur vel með öðrum? Ef svarið er já erum við með spennandi starf fyrir þig!

ÍSÍ og UMFÍ leitar að hæfileikaríkum og metnaðarfullum einstaklingum með brennandi áhuga á íþróttastarfi á Íslandi til að taka þátt í að byggja upp öflugt starf íþróttahéraða á öllu landinu.

Sem starfsmaður svæðastöðva íþróttahéraðanna munt þú taka þátt í að skapa tækifæri og þróa árangursríkt íþróttaumhverfi fyrir börn - og ungmenni. Þú munt fá tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að hámarka tækifæri barna - og ungmenna til íþróttaiðkunar. Starfsemi svæðastöðva byggir á teymishugsun þar sem samvinna, fagmennska og framsækni í sterkri liðsheild er grundvallaratriði.

Tveir starfsmenn starfa á hverri starfsstöð eða sextán um allt land og vinna þeir saman í teymi.

 

Helstu verkefni svæðastöðva
  • Samstarf, samskipti og stuðningur við íþróttahéruð og aðildarfélög.
  • Samstarf og samskipti við opinbera aðila varðandi stuðning og þjónustu íþróttafélaga um allt land.
  • Vinnsla verkefna sem tengjast aukinni þátttöku barna í íþróttum og farsæld.
  • Verkefnisstjórnun og vinna að nýsköpunarverkefnum.
  • Móta skipulag og eftirfylgni tengt fræðslumálum íþróttahéraða.
  • Fræðsla og kynning til íþróttahéraða og aðildarfélaga í ýmsum málum.
  • Samræming málaflokka, stjórnarhátta, verkferla, öryggis- og viðbragðsáætlana.
  • Koma upp og viðhalda leiðbeiningum og viðmiðum fyrir stjórnun íþróttahéraða og stjórnendur íþróttafélaga.
  • Yfirlit og eftirfylgni með lögbundnum skyldum íþróttahéraða og aðildarfélaga.
  • Umsjón og þátttaka í samráði og á samræmingarfundum.
  • Menntunar- og hæfniskröfur.
     

Leitað er að hæfileikaríkum einstaklingum með fjölbreytta þekkingu til að gegna ofangreindum verkefnum.

  • Reynsla og þekking af starfi innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi og samstarfi við sveitarfélög er kostur.
  • Styrkleiki og reynsla á eftirfarandi sviðum er kostur: Verkefnastjórnun mótun ferla fræðsla og miðlun upplýsinga teymisvinna

Til viðbótar er mikilvægt að umsækjendur búi yfir frumkvæði, séu sjálfstæðir, geti unnið í teymi, miðlað upplýsingum munnlega og skriflega, unnið skipulega, haft góða samskiptahæfileika og getu til að ná árangri í mjög fjölbreyttu umhverfi.

Umsækjendur þurfa að sjálfsögðu að hafa hreint sakavottorð í samræmi við ákvæði í íþróttalögum.

 

Um verkefnið

ÍSÍ og UMFÍ standa að verkefninu og hafa auk þess fengið stuðning frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Samtökin hafa undirritað samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðastöðvum og hvatasjóði. Svæðastöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Búið er að skipta öllu landinu upp í átta svæði þar sem á hverju svæði verður unnið í samvinnu við íþróttahéruð, aðildarfélög íþróttahreyfingarinnar og opinberum aðilum að markmiðum samningsins og stefnu ríkisins og íþróttahreyfingarinnar í íþróttamálum. 

 

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu www.isi.is og www.umfi.is.