Fara á efnissvæði
31. janúar 2022

Leiðari formanns: Áhersla á almenna þátttöku og lýðheilsu

Á sambandsþingi okkar á Húsavík í haust var kynnt niðurstaða stefnumótunarvinnu sem hreyfingin hefur unnið að. Niðurstaða okkar var sú að hlutverk UMFÍ væri að styrkja starf sambandsaðila og aðildarfélaga þeirra ásamt því að hvetja og styðja við bætta lýðheilsu landsmanna. Framtíðarsýn okkar er að leggja áherslu á almenna þátttöku og lýðheilsu og með stuðningi sambandsins verður starf sambandsaðila og aðildarfélaga þeirra sterkara og öflugra. Gleði – Traust – Samvinna eru gildin sem við höfum að leiðarljósi. Verkefni okkar nú er að innleiða fyrirliggjandi aðgerðaáætlun inn í starf nefnda og dagleg verkefni UMFÍ til að ná þeim markmiðum sem við lögðum áherslu á og fram kemur í Stefnu UMFÍ.

Stefnuna má nálgast á heimasíðunni okkar, www.umfi.is: Stefna UMFÍ.

 

 

Verkefni ungmennafélagshreyfingarinnar næstu misseri mun áfram litast af áhrifum COVID-19. Það er ótrúlegt að hafa upplifað sveigjanleikann og kraftinn sem starfsfólk innan vébanda hreyfingarinnar hefur sýnt við að leysa úr þeim verkefnum sem veiran hefur skapað í starfinu. Þá er jafnframt vert að þakka hinu opinbera fyrir mikilsverðan stuðning við starf hreyfingarinnar á þessum tímum. Það er ekki sjálfgefið. 

Í nóvember sótti ég ásamt starfsfólki UMFÍ ráðstefnu International Sport and Cultural Association (ISCA), sem haldin var í Belgíu. Þetta eru alþjóðleg samtök ýmissa grasrótarsamtaka á sviði íþrótta, almenningsíþrótta og menningar og vinnur UMFÍ náið með þeim. Á ráðstefnunni var áhersla lögð á að koma starfinu í gang að nýju undir slagorðunum: Endurtenging – Endurbygging – Endurræsing (Reconnect – Rebuild – Restart). 

 

 

Þótt hér á landi séu mörg tækifæri kom berlega í ljós þarna ytra hversu mikilla forréttinda við Íslendingar njótum. Í samtölum mínum við aðra þátttakendur á ráðstefnunni og forystufólk hennar kom fram að innviðir og skipulag samtaka sem sinna almenningsíþróttum í öðrum löndum er orðið laskað eftir veirufaraldurinn, ágreiningur er um lagalega umgjörð starfsins og sjálfboðaliðar eru víða horfnir á braut; þeir þurfa einfaldlega að nýta tíma sinn til að vinna að öflun grunnþarfa, lágmarks lífsgæða, svo sem matar og húsaskjóls sem flestum okkar þykir sjálfsagt. 

Við erum öll að glíma við verkefni samtímans. En vandamálin eru misjöfn. Á ráðstefnunni var sem dæmi mikil áhersla lögð á viðbrögð við þeim gríðarlega fjölda flóttamanna sem streymir til Evrópulandanna. Áhersla var á leiðir til að ná meiri árangri í baráttunni um nauðsynleg aðföng, þ.m.t. vinnu sjálfboðaliða og fjármagn, en þá verður starfsemin að vera áhrifavaldur í þróun samfélagsins. Bent var á að ein þeirra leiða væri að nota verkfæri viðskiptalífsins til að umbreyta starfseminni í samræmi við þarfir og tíðaranda. Í raun þyrfti íþróttahreyfingin að vera skrefi á undan samtíðinni, hún þyrfti að hafa ákveðið leikjaplan sem ynni með þróuninni. Planið þyrfti að byggja á gagnasöfnun og greiningu gagnanna. Það eru
stoðirnar fyrir framtíðina. 

 

 

Auknar kröfur eru settar á UMFÍ að leysa verkefnis samtímans. Við munum áfram, í samræmi við stefnuna, styðja við daglegt starf sambandsaðila með því að leita nýrra leiða og bættra úfærslna á núverandi starfi okkar til að gera starfið sterkara og öflugra inn í framtíðina. 

UMFÍ, okkar hreyfing!

 

Leiðari Jóhanns birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Þú getur smellt á blaðið hér að neðan og lesið það allt á umfi.is.

Lesa Skinfaxa