Fara á efnissvæði
02. janúar 2023

Leiðari: Sterkari saman á nýju ári

Við stöndum á tímamótum, við þröskuld liðins árs og við upphaf þess nýja,  með fullt af óteljandi tækifærum. Þar  sem tíminn er takmarkaður þurfum við að velja  og hafna og velja þær leiðir sem skila okkur lengra fram á veginn.

Árið 2022 hefur verið krefjandi og áhugavert og reynt á ýmsa þætti í starfi okkar. Við héldum áfram að koma okkur í gegnum faraldurinn og eftirhreytur hans. En við erum fjarri því að hafa verið ein í þeirri stöðu. Í samskiptum okkar á alþjóðavettvangi urðum við þess áskynja að frjáls félagasamtök á heimsvísu glímdu við sambærileg eða verri eftirköst heimsfaraldursins. Þótt sóttvarnaraðgerðum hafi víða verið aflétt á fyrri hluta árs hefur hegð- un fólks breyst. Jafn erfitt og það var að draga sig í hlé við upphaf faraldurs og huga að sér og sínum var eftirleikurinn heldur ekki léttur. Lifandi og áður vinsælir mannfögnuðir urðu nú fámennari og þátttaka í viðburðum minni en væntingar stóðu til.

Þessu hafa kollegar okkar bæði hér á landi og í öðrum löndum fundið fyrir.

Þátttaka fólks í viðburðum samfélagsins skiptir máli. Hún skiptir ekki einungis máli fyrir  félögin okkar heldur ekki síst fyrir einstakling ana sjálfa, fólkið sem myndar félögin. Það er í samskiptunum og samverunni sem allt verður til. Þar eru kraftar sem við í ungmennafélagshreyfingunni og víðar tökum eftir og höfum unnið að því að beisla. Allt verður einhvern veginn betra og skemmtilegra þegar fleiri vinna saman.

Fyrir þremur árum bættust Íþróttabandalag  Reykjavíkur, Íþróttabandalag Akureyrar og Íþróttabandalag Akraness við UMFÍ. Nú í vet- ur bættist Íþróttabandalag Hafnarfjarðar í raðirnar og eru þá öll íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu aðilar að UMFÍ. Til viðbótar flutti þjónustumiðstöð UMFÍ inn í Íþróttamiðstöðina í Laugardal. Þar er stærstur hluti íþróttahreyfingarinnar undir einu þaki – ÍSÍ, UMFÍ, ÍBR og UMSK auk fjölda sérsambanda. Samstarfið og samvinnan innan íþróttahreyfingarinnar er vaxandi.

Krafturinn er mikill og við bindum vonir við að hann muni aðeins aukast og gera gott starf enn betra.

 

 

Margt í starfi íþróttahreyfingarinnar þarf að þróast og breytast. Þar á meðal er uppbygging íþróttahéraða, tilgangur þeirra og hlutverk. Í íþróttalögum er kveðið á um að eitt héraðssamband eða íþróttabandalag skuli vera í hverju íþróttahéraði. Íslandi er í dag skipt upp í 25 íþróttahéruð með sjö íþróttabandalögum og átján héraðssamböndum og er þeim ætlað að vinna að fjölbreyttum  hagsmunamálum íþrótta- og ungmennafélaga  á hverju svæði.

Íþróttahéruðin voru mörg stofnuð á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar og standa þau óbreytt síðan þá. Hlutverk þeirra hefur staðið óhaggað frá fyrsta degi.  Unnið er að eflingu þeirra, skarpara hlutverki og að finna leiðir til að þau þjóni vel iðkendum og félögum í samtímanum.  

Að leiðaralokum vil ég nota tækifærið og óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Setjum okkur markmið um aukna hreyfingu og drögum okkar nánustu með. Bætt lýðheilsa skiptir máli og með því að huga að henni verðum við sterkari saman, samfélaginu til góða.

 

Leiðari Jóhanns Steinars birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. 

 

 

 

Nýjasta tölublað Skinfaxa er hægt að lesa í heild sinni hér: 

Skinfaxi 3. tbl. 2022

Þú getur lesið eldri tölublöð Skinfaxa allt aftur til fyrsta tölublaðs á Netinu: Eldri tölublöð Skinfaxa

Þú getur líka smellt á myndina hér að neðan og náð í nýja blaðið á PDF-formi