Fara á efnissvæði
11. febrúar 2025

Leiðirnar gegn óæskilegri hegðun í íþróttum

Mikilvægt er að í íþróttahreyfingunni sé stuðlað að því að starfsemin fari fram í öruggu umhverfi og að öllum sem að starfinu koma líði vel og dafni. Ef atvik koma upp á eiga allir að geta leitað aðstoðar, án þess að óttast afleiðingar.

UMFÍ minnir sambandsaðila og aðildarfélög á viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs við ýmsum málum, þar á meðal ofbeldi, einelti, slysum og öðru sem getur komið upp á í daglegu starfi.

Viðbragðsáætlunin var afrakstur samstarfs Bandalags íslenskra skáta, Íþróttabandalags Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, KFUM og KFUK, Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, UMFÍ og Æskulýðsvettvangsins en þar eiga Bandalag íslenskra skáta, KFUM&K, Slysavarnarfélagið landsbjörg  og UMFÍ samstarf um ýmis mál sem tengjast starfinu.

Í samræmdu viðbragðsáætluninni kemur meðal annars fram að nauðsynlegt er að tilkynna ofbeldis- eða eineltismál til viðeigandi aðila, þegar slíkt kemur upp innan íþrótta- og æskulýðsfélaga eða samtaka. Þá er einnig hægt að leita beint til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir einelti eða öðru formi ofbeldis í íþrótta- eða æskulýðsstarfi.

UMFÍ hvetur öll sem lenda í slíkum atvikum að tilkynna málin og tryggja faglega aðkomu að lausn þeirra.

 

Um viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfi

Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs er hægt að nálgast og lesa á öllum vefsvæðum íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar.

Viðbragðsáætlunina er líka hægt að nálgast á vefsvæði Samskiptaráðgjafa en þar er jafnframt hægt að nálgast ítarlegri upplýsingar um viðbrögð við óæskilegri hegðun, verklag til að fá börn aftur á æfingar, leiðbeiningar til að sækja upplýsingar úr sakaskrá og fleiri gagnleg atriði.

 

Vefsvæði samskiptaráðgjafa 

Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs