Fara á efnissvæði
29. júní 2019

Lét ekki handleggsbrot stöðva sig í kastgreinum

„Það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður og taka þátt. Veðrið er líka búið að vera svo gott að maður getur ekki látið handleggsbrot trufla sig,“ segir Harpa Hlín Jónsdóttir frá Ólafsfirði.

Hún var að æfa sig með manni sínum fyrir Landsmót UMFÍ 50+ í síðustu viku en handleggsbrotnaði og hefur keppt í fjölmörgum greinum í frjálsum íþróttum í fatla. Þar á meðal eru kúluvarp, lóðkast og spjótkast. Harpa brotnaði á hægri handlegg og er rétthent og þurfti því að nota vinstri hendina í kastgreinum. Nokkuð sem hún er ekki vön.

„Við erum miklar fjallageitur og vorum í tjaldvagni uppá Héraði þegar okkur datt í hug að prófa að æfa okkur fyrir mótið á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum. Við höfðum nefnilega skráð okkur í lóðkast, 800 metra hlaup, spjótkast og fleira. Ég var í skóm með lykkjureim sem losnaði þegar ég var hálfnuð í hlaupi. Hægri stóra táin fór inn í lykkjuna og ég flaug á hausinn. Næsta morgun fór ég til læknis og hann sá sprungu og brot á olnbogaliðnum. Ég var gifsuð frá öxl og niður að olnboga,“ segir Harpa en er fljót að bæta við að hún hafi ákveðið að koma til Neskaupstaðar þar sem maður hennar var í heilu lagi og ætlaði að keppa.

„Ég ætlaði auðvitað ekki að sitja og horfa á og barma mér og ákvað því að kasta með vinstri hendi,“ segir Harpa sem segist hafa fallið fyrir Landsmóti UMFÍ 50+ þegar þau komu í fyrsta sinn á Landsmótið á Sauðárkróki í fyrra.