Líf og fjör í Heilsuleikskólanum Kór í Hreyfiviku UMFÍ
„Við förum alltaf í göngutúr á hverjum degi með börnin í Hreyfiviku UMFÍ. Við förum í leiki, poppum yfir eldi og skoðum hestana. Við bjóðum foreldrum að koma með og afi hefur líka þekkst boðið,“ segir Bergrún Stefánsdóttir, íþróttafræðingur og fagstjóri hreyfingar í Heilsuleikskólanum Kór í Kópavogi. Yngri og eldri deildir í skólanum fara í nokkurra kílómetra göngutúra á hverjum degi í Hreyfivikunni og njóta þess að vera úti. Farið er út tvisvar á dag um tvo tíma í senn og eru á milli 10-15 börn í hverjum hópi auk starfsfólks.
Hreyfivika UMFÍ stendur nú yfir og er þetta sjöunda árið. Skólinn hefur tekið þátt í Hreyfivikunni í nokkur ár.
Bergrún segir börnin hafa mjög gaman af þátttökunni, sérstaklega þegar vel viðrar eins og í vikunni.
„Foreldrar hafa mjög gaman af því að vera með, kynnast starfi starfi okkar með börnunum, fara með þeim í hreyfileika og fá innsýn í daglegt líf þeirra,“ segir Bergrún.
Heilsuskólinn Kórinn er í nágrenni íþróttahúss HK í Kópavogi og er þaðan stutt í gott útivistarsvæði, skóg og hesthús.
Bergrún segir að þegar komið er inn í skóginn geri börnin æfingar, klifri í trjánum og hvetji foreldra sína til að taka þátt. Á meðal æfinganna eru upphífur, sem flestir reyna við.
Í gegnum tíðina hefur verið boðið upp á ýmsa skemmtilega samveru með börnunum í leikskkólanum. Þar á meðal er fjölskyldujóga, danstímar og fleira.
„Hreyfivikan er skemmtilegasti tíminn. Útivera og hreyfingin gerir öllum gott. Svo skemmir veðrið ekki fyrir,“ bætir Bergrún við.
Fleiri viðburðir í Hreyfiviku UMFÍ
Hreyfivika UMFÍ hófst mánudaginn 27. maí og stendur fram á sunnudag 2. júní.
Hreyfivika UMFÍ er árleg lýðheilsuherferð og hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka þátt í hreyfingu og íþróttum. UMFÍ vill að allir landsmenn finni sína uppáhalds hreyfingu. #minhreyfing. Börn eiga að hreyfa sig að lágmarki 60 mínútur daglega og fullorðnir í 30 mínútur.
Boðið er upp á fjölda viðburða um allt land í Hreyfivikunni.
Hefurðu fundið viðburð sem þér líkar við? Smelltu hér og sjáðu hvað er í boði
Langar þig að koma öðrum á hreyfingu? Smelltu hér og skráðu viðburðinn
Hér má sjá fleiri myndir frá göngutúrum barnanna og starfsfólks leikskólans. Foreldrar barnanna gáfu leyfi fyrir birtingu myndanna.