Fara á efnissvæði
29. maí 2020

Líf og fjör í Hreyfiviku UMFÍ á Reyðarfirði

Nemendur við Grunnskóla Reyðarfjarðar hafa tekið Hreyfiviku UMFÍ með trompi í vikunni, farið í fjallgöngur og brennibolta. Hreyfivikan hófst mánudaginn 25. maí og stendur til sunnudagsins 31. maí. Anna María Skrodzka, íþróttakennari skólans, skipulagði Hreyfiviku skólans í þaula.

„Við erum búin að vera óskaplega dugleg og börnin í útiveru,“ segir Díana Ívarsdóttir, aðstoðarskólastjóri skólans og er afskaplega ánægð með árangurinn.

Bekkirnir hafa skipst á verkefnum, farið í sund og brennibolta, farið í stígavélakast, hlaupið með kartöflu í skeið, hlaupið með grjónapoka á höfði, farið í reiptog og margt fleira skemmtilegt.

 

 

Í gær fór allur skólinn í rútuferð strax um morguninn til að skoða trjáasafnið í Hallormsstað. Yngri nemendur fengu að leika sér í Atlavík. Eldribekkingar í 4.-10. bekk gengu að Hengifossi í Fljótsdal en komu síðan til samnemenda sinn til að svamla í Atlavíkinni.

Börnin hafa mörg farið í fjallgöngur og fengið útikennslu, leikið sér í íþróttahúsinu og farið í sund á Eskifirði.

Plokk hefur líka skipað stóran sess í Hreyfiviku UMFÍ á Reyðarfirði og nemendum verið skipt upp í hópa til að hreinsa bæinn og nágrenni hans, s.s. svæðið þar sem vinnubúðir voru fyrir þá sem unnu við byggingu álversins.

Í dag voru svo skólaslit í skólanum.

„Það var mikið fjör í dag. Yfir 200 krakkar fóru í Tarzanleiki og bleyttu plastpoka til að renna sér niður brekkur og margt fleira. Allir voru svo leystir út með Kristal,“ segir Díana.

Brennibolti var í aðalhlutverki í Hreyfiviku UMFÍ og voru sérmerktir brenniboltar sendir til skóla víða um land í aðdraganda Hreyfivikunnar. Einn bolti var á hvern bekk í Grunnskóla Reyðarfjarðar og verða þeir notaðir áfram, að sögn Díönu.

 

Finndu þína uppáhalds hreyfingu

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kringum sig. Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju.

Í Hreyfivikunni standa boðberar hreyfingar fyrir viðburðum um allt land. Það geta verið einstaklingar, íþróttafélag, fyrirtæki eða sveitarfélag sem stendur fyrir viðburði og hvetur boðberinn samferðafólk sitt til að hreyfa sig. Stöðug fleiri standa fyrir slíkri hvatningu.

Í ár verða viðburðir á yfir 40 stöðum um allt land en boðberar eru viðstöðulaust að bætast í hópinn og geta viðburðirnir því hæglega orðið mun fleiri. Viðburðina má sjá á vefsíðunni www.hreyfivika.is.

 

Fleiri myndir frá Hreyfiviku UMFÍ í Reyðarfirði