Fara á efnissvæði
04. janúar 2018

Lína Dóra er nýr starfsmaður á Laugum í Sælingsdal

„Mér fannst svakalega gaman þegar ég fór á Laugar með bekknum mínum í Réttarholtsskóla á sínum tíma. Þegar ég sá starf þar auglýst þá þekkti ég staðinn og muni hvað þar var gaman. Þess vegna sótti ég um,“ segir Lína Dóra Hannesdóttir. Hún hefur verið ráðin tómstundaleiðbeinandi í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ að Laugum í Sælingsdal. Hún hefur störf mánudaginn 8. janúar.

Lína Dóra er tvítug, fædd og uppalinn í Reykjavík. Hún var stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í fyrravor, lærði sálfræði og félagsfræði, táknmál og hússtjórn. Eftir stúdentsprófið bætti hún við sig einni önn í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík.

En hvers vegna Laugar?

„Ég hef unnið á leikjanámskeiðum Sigluness í Nauthólsvík með 9-16 ára börnum og ungmennum síðastliðin fjögur sumur. Þegar ég sá auglýsingu um starf tómstundaleiðbeinanda í Ungmenna- og tómstundabúðunum þá rifjuðust upp góðar minningar, mig langaði vestur og ég ákvað að halda áfram að vinna með ungu fólki,“ segir Lína Dóra.

 

Um Ungmennabúðirnar

Ungmenna- og tómstundabúðirnar á Laugum í Dalabyggð eru reknar af UMFÍ og eru þær ætlaðar nemendum í 9. bekk grunnskóla. Þeir eiga möguleika á að dvelja þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf.

Í búðunum er aðaláhersla lögð á félagsfærni, útivist, hreyfingu og menningu.

Markmiðið með dvölinni á Laugum er að styrkja félagsfærni unglinga, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi. 

Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ byrjuðu starfsemi sína í janúar árið 2005. Árlega koma um 1900 ungmenni í búðirnar. Skólastjórnendur geta pantað dvöl í Ungmennabúðunum. Þar er alltaf opið fyrir pantanir. Fyrstur kemur fyrstur fær.

 

Á myndinni hér að ofan eru þau Jörgen Nilsson frístundaleiðbeinandi, Anna Margrét Tómasdóttir, forstöðumaður Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ, og Lína Dóra Hannesdóttir.

Meira um Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ