Fara á efnissvæði
13. febrúar 2025

Ljómandi spenningur fyrir Landsmóti UMFÍ 50+

„Það er ljómandi spenningur fyrir landsmótinu í sveitarfélaginu og allir orðnir spenntir enda er þetta fyrsti viðburðurinn sem við hjá UÍF stöndum fyrir,“ segir Óskar Þórðarson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF). Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Siglufirði og Ólafsfirði dagana 27. – 29. júní. 

Óskar, Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, og Þórir Hákonarson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, skrifuðu undir samning um mótahaldið á formannafundi UÍF, sem fram fór í Síldarkaffi á Síldarminjasafningu á Siglufirði í gærkvöldi. 

Þetta verður 13. Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í Fjallabyggð en það fyrsta fór fram árið 2011. 

 

Mót sem sameinar félögin

Óskar bendir á að aðildarfélög UÍF hafi um árabil staðið hvert fyrir sínum viðburði, skíðamótum, vélsleðamótum og blakmótum eins og því sem er á dagskrá um helgina. UÍF hafi hins vegar ekki staðið fyrir viðburðum eins og Landsmóti UMFÍ 50+. 

„Þetta mót mun væntanlega sameina félögin í verkefninu. Hljóðið er líka svo gott í fólki. Við búin að manna framkvæmdanefndina og vel það,“ heldur hann áfram. 

Óskar er ánægður með formannafundinn, sem var vel sóttur en í kringum 50 fulltrúar allra aðildarfélaga hafi mætt. 

Ómar Bragi kynnti mótið fyrir fundargestum og fór yfir helstu keppnisgreinar, sem munu fara fram bæði á Siglufirði og Ólafsfirði. 

En fleira var líka á dagskrá, svo sem umræða um lottóúthlutun frá ÍSÍ og UMFÍ og breytingar á þeim auk umræðna á vali á íþróttamanni Fjallabyggðar, aldri þeirra og lögheimili þeirra sem titilinn hljóta.

 

Margar skemmtilegar greinar

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri. 

Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum. 

Gert er ráð fyrir að tjaldsvæðið mótsins verði á Ólafsfirði. 

Keppt verður í að minnsta kosti 13 mismunandi greinum:

  • Boccía
  • Bridds
  • Frjálsar íþróttir
  • Golf
  • Petanque
  • Píla
  • Pokavarp
  • Pútt
  • Pönnukökubakstur
  • Ringó
  • Skotfimi
  • Stígvélakast
  • Sund

Vefsvæði Landsmóts UMFÍ 50+

Myndir frá formannafundi UÍF