Lög um lýðskóla samþykkt á Alþingi
Lög um lýðskóla voru samþykkt á Alþingi í gær. UMFÍ hefur lengi haft áform um að setja lýðskóla á laggirnar á Laugarvatni og ætíð tekið þátt í umsagnarferlinu á meðan lögin voru í ferli á Alþingi.
Tveir lýðskólar eru nú starfandi á Íslandi. Það er Lýðskólinn á Flateyri og LungA-skólinn á Seyðisfirði. UMFÍ hefur jafnframt um árabil styrkt ungt fólk til náms í lýðskólum í Danmörku.
Í umsögnum UMFÍ við frumvarp um lýðskóla hefur ætíð verið lögð áhersla á að lýðskólar muni fjölga möguleikum ungs fólks til náms. Þeir geti dregið úr afleiðingum brottfalls úr námi og jafnframt verið góður valkostur fyrir þá sem hafi fallið úr formlegu námi eða atvinnulausu fólki sem þurfi að finna sér nýjan farveg. Í umsögnum UMFÍ segir að brottfall úr námi hafi áhrif á atvinnutækifæri ungs fólks og hætt við að lífsgæði fór sem svo fer fyrir verði lélegri en annarra.
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, fagnar því að lögin hafi verið samþykkt.
„Við höfum haldið að okkur höndum og viljað halda okkur innan lagarammans sem Alþingi setur. Nú er hægt að snúa sér að þeim möguleika að vinna eftir lögunum,“ segir hann.
Hægt er að lesa umsagnir UMFÍ á vef Alþingis um feril málsins