Fara á efnissvæði
08. janúar 2024

Lýsir eftir hinsegin fyrirmyndum í íþróttum

Öll börn eiga að hafa jafna möguleika til þátttöku í æskulýðs- og íþróttastarfi af öryggi og virðingu. Íþrótta- og ungmennafélög standa frammi fyrir ýmiss konar áskorunum til að gera öllum iðkendum sínum kleift að njóta þess að stunda íþróttir. Fjölbreytileikinn er orðinn mikill og mikilvægt að koma til móts við þarfir allra iðkenda. Ungmennafélagshreyfingin hefur það ávallt að markmiði að allir geti verið með í íþróttum. Íþróttafræðingurinn Sveinn Sampsted skrifaði um upplifun hinsegin fólks í íþróttum í lokaritgerð sinni við Háskólann í Reykjavík.

Þátttakendur í íþrótta- og æskulýðsstarfi geta komið út sem hinsegin á öllum aldri. Á heimasíðu Samtakanna 78 má finna góðar leiðbeiningar fyrir kynskráningar sem unnar voru í samvinnu Samtakanna 78 og Trans á Íslandi. Hér verður stuðst við útskýringar frá þeim.

Hinsegin er regnhlífarhugtak sem nær yfir fjölbreytileika kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar. Kynhneigð snýr að því hverjum einstaklingar laðast að tilfinningalega og/eða kynferðislega. Kynvitund er innri vitund einstaklinga á eigin kyni, óháð kynfærum eða kyntjáningu.

Kyneinkenni eru líkamleg einkenni einstaklinga sem tengjast flokkun á kyni. Kyntjáning segir til um hvernig fólk tjáir kynvitund sína dagsdaglega, til að mynda með klæðavali og líkamstjáningu.

 

Hinsegin fólk og íþróttir

Sveinn Sampsted er íþróttafræðingur og fræðari hjá Samtökunum 78. Lokaverkefni Sveins, sem er frá árinu 2019, til bakkalárgráðu í Íþróttafræðum frá Háskólanum í Reykjavík fjallar um rannsókn hans á upplifun LGB-íþróttafólks af íþróttahreyfingunni á Íslandi. LGB eru þrír fremstu stafirnir í hinsegin skammstöfuninni LGBTQIA+. Þar stendur L fyrir lesbíur (e. lesbian), G fyrir homma (e. gay), B fyrir tvíkynhneigð (e. bisexuals), T fyrir trans, Q fyrir hinsegin (e. queer), I fyrir Intersex og A fyrir eikynhneigða (e. asexual).

Í kjölfarið hefur Sveinn unnið verkefni fyrir alla hinseginhópana og var t.a.m. einn af höfundum bæklingsins Trans börn og íþróttir, sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) gaf út árið 2020. Nú er Sveinn að leggja lokahönd á verkefni fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið við gerð fræðsluefnis um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi auk þess að útbúa leiðbeiningar fyrir þau sem bera ábyrgð á slíku starfi.

Meginmarkmið rannsóknar Sveins í háskólaritgerðinni var að komast að því hver upplifun hinsegin fólks á Íslandi væri af íþróttahreyfingunni og finna leiðir til að bæta þá upplifun. Sveinn tók viðtöl við átta einstaklinga, sem allir skilgreina sig sem hinsegin. Allir höfðu þeir æft íþróttir í a.m.k. eitt ár, komið út úr skápnum og haldið áfram að æfa sína íþrótt.

Viðmælendurnir höfðu reynslu úr íþróttastarfi á tímabilinu 2000–2019, bæði í hóp- og einstaklingsíþróttum, og voru á bilinu 19 ára til 41 árs. Viðtölin voru síðan skoðuð og borin saman til þess að finna ákveðin þemu sem tengdu þau saman til að fá niðurstöður rannsóknar.

 

Mikilvægi fyrirmynda

Viðtöl viðmælenda Sveins fara um víðan völl og margt fróðlegt kemur fram. Sjáanlegt er hversu mikilvægar fyrirmyndir eru og að sýnileiki og stuðningur séu til staðar fyrir hinsegin fólk í íþróttum.  Einstaklingar þurfa að vera meðvitaðir um að hinsegin fólk sé alls staðar og ekki endilega fjarverandi.

Fyrirmyndir þurfa bæði að vera til staðar í nánasta umhverfi einstaklinga og í formi frægra eða framúrskarandi íþróttafólks. Sveinn fjallar um framtíðarskrefin og hvernig þátttakendur í rannsókninni voru allir sammála um að fræðsla gegndi mikilvægu hlutverki. Fræðsla geti sem dæmi verið í formi samskiptafræðslu, þjálfarafræðslu eða fræðslu fyrir íþróttahreyfinguna í heild sinni.

Sveinn fer einnig inn á mikilvægi þess að þjálfarar hafi þekkingu til að takast á við aðstæður og séu góð fyrirmynd fyrir iðkendur. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa lesendum og öðrum góða innsýn í heim hinsegin íþróttafólks.

Niðurstöður Sveins gáfu til kynna að upplifun hinsegin fólks í íþróttum væri almennt góð. Engu að síður má finna þætti sem hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á upplifun þeirra. Neikvæðu áhrifin  birtust í gegnum staðalímyndir, neikvæða orðræðu, brot á kynímyndum, því að vera „öðruvísi“ og eitraða karlmennsku. Jákvæðu áhrifin komu almennt frá kynjablönduðum íþróttum, að halda sig innan kynímynda og að stunda íþróttir með hinsegin félögum.

Heilt yfir segir Sveinn að viðtölin hafi almennt verið meira á jákvæðu nótunum en á þeim neikvæðu. Niðurstöður bentu einnig til þess að þátttakendur væru sammála um að alls kyns fyrirmyndir og sýnilegur stuðningur myndu hafa mest áhrif á mögulegar lausnir til að bæta stöðu hinsegin fólks innan íþrótta.

Einnig bentu þær til mikilvægis þess að í fræðsluefni þeirra sem vinna innan íþróttahreyfingarinnar væri að finna vel undirbúið efni til að takast á við ýmis atvik sem gætu komið upp. Þjálfarar gegndu þar lykilhlutverki, enda eyddu þeir miklum tíma með iðkendum sínum.

Þegar öllu er á botninn hvolft er mikilvægast að öll börn í íþrótta- og æskulýðsstarfi upplifi sig örugg, hamingjusöm og samþykkt í umhverfi sínu, sama hver kynhneigð, kynvitund eða kyneinkenni þeirra eru. Börnum ættu að finnast þau velkomin og samþykkt, það er meðal annars mikilvægt fyrir sjálfstraust, andlega líðan og þroska þeirra.

 

Lærdómurinn

„Það sem ég lærði af rannsókninni var að ég þurfti að vinna í fjórum þáttum, sem voru fræðsla, fyrirmyndir, sýnilegur stuðningur og aðferðir til að stöðva fordóma. Eftir að ég skoðaði upplifun trans fólks og intersex fólks hafa bæst við aðstöðumál og reglugerðir,“ segir Sveinn. Hann bætir síðan við að fræðslan sé mikilvægust svo að öll í íþróttahreyfingunni, þá sérstaklega þjálfarar, stjórnendur og annað starfsfólk, séu meðvituð um helstu hugtök og hópa innan hinsegin samfélagsins og hvernig hægt sé að styðja við hinsegin fólk í íþróttastarfi.

 

Sýnilegur stuðningur skiptir máli

„Haustið 2022 skrifaði ég fyrirlesturinn Hinsegin og íþróttir, í samstarfi við Samtökin 78. Fræðslan er sérstaklega ætluð iðkendum, þjálfurum, starfsfólki og stjórnendum innan íþróttahreyfingarinnar, hvort sem um ræðir afreks- eða almenningsíþróttir. Fræðslan er samsuða af Hinsegin 101 efni Samtakanna 78, bæklingnum Trans börn og íþróttir og rannsókn minni um upplifun hinsegin fólks í

íþróttum,“ segir Sveinn og bendir á að fræðslan hafi fengið stórkostlegar viðtökur. Nú hafi yfir 50 erindi verið haldin úti um allt land á aðeins fyrsta árinu og sum félög hafi fengið fræðslu oftar en einu sinni. Nú síðast var farið í heimsókn til Íþróttafélagsins Asparinnar og GKG.

Sveinn fékk einnig viðurkenninguna Framúrskarandi ungur Íslendingur 2023, fyrir fyrirlesturinn sem framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda.

„Sýnilegur stuðningur hefur aukist mikið og núna eru íþróttafélög um allt land að flagga regnbogafánum, eru með regnbogalímmiða á hurðum og setja stuðningsfærslur á samfélagsmiðla. Auk þess eru leikmenn með fyrirliðabönd í regnbogalitum. Svona sýnilegur stuðningur skiptir hinsegin fólk miklu máli því hann gefur til kynna að þetta rými tilheyri því líka og að félagið sé með hagsmuni þeirra í fyrirrúmi. Því má segja að á sviði fræðslu og sýnilegs stuðnings hafi náðst mikill árangur,“ bætir Sveinn við.

 

Þjálfarinn spilar stórt hlutverk

Sveinn segir að stærsta vandamálið sem við glímum við í dag, sem snerti alla hópa hinsegin samfélagsins, sé særandi orðræða og fordómar.

„Þar hefur því miður orðið bakslag. Særandi orð eins og faggi, trukkalessa, kynskiptingur og fleiri hafa sérstaklega skaðleg áhrif og því þarf að sjá til þess að íþróttahreyfingin vinni gagngert í því að stöðva slíka orðræðu. Þar spilar þjálfarinn stórt hlutverk. Ef hann heyrir iðkendur sína nota særandi orð um hinsegin fólk er mikilvægt að hann stígi inn í og stöðvi það. Ef hann gerir það ekki er hann að gefa í skyn að svona orðræða sé í lagi. En hún er það ekki!“ segir Sveinn.

Hluti af íþróttafræðslu Sveins snýr að því hvernig eigi að stöðva særandi orðræðu. „Ég hef heyrt af því að fræðslan hafi jákvæð áhrif hjá þeim félögum sem við höfum heimsótt,“ segir Sveinn og bendir á að ýmislegt fleira þurfi að færa til betri vegar. Þar á meðal séu aðstöðumálin. Allir eigi að geta fundið sér búningsklefa við hæfi. Þar spilar sérklefi stórt hlutverk, en það er kynhlutlaus klefi sem öll geta nýtt sér. Sérklefar eru hugsaðir fyrir fólk sem vill ekki eða getur ekki nýtt sér kyngreindu klefana. Þar á meðal er fólk sem er fatlað, með stóma, trans, intersex og fjölskyldur.

„Það þarf einnig að skýra línurnar þegar kemur að trans fólki. Það ríkir sums staðar mikil óvissa um hvað gerist þegar iðkandi kemur út úr skápnum sem trans, sérstaklega eftir 12 ára aldur, og því er  mikilvægt að gerð sé skýr stefna til að trans fólk viti nákvæmlega hverju það eigi að búast við frá yngsta flokki, upp í meistaraflokk og síðan í öldungaflokki. Óvissa veldur kvíða og óþægindum, sem ýtir undir brottfall. Við þurfum að svara fyrir fram öllum þeim spurningum sem trans fólk hefur.

Síðan þarf Ísland að beita sér í að kjósa gegn tillögum um útilokun trans og intersex fólks á heimsvísu til að sporna gegn þeirri þróun að þessir hópar séu útilokaðir frá hinum og þessum íþróttum,“ segir Sveinn.

 

Skortur á fyrirmyndum

Því miður eru fáar fyrirmyndir fyrir hinsegin fólk í íþróttum. „Við höfum verið að reyna að fjölga þeim. En við eigum langt í land. Fyrirmyndirnar eru klárlega til staðar í öllum íþróttum. Við þurfum bara að lyfta þeim upp og veita þeim tækifæri til að segja sína sögu í fjölmiðlum, það er þeim sem eru tilbúin til þess,“ segir Sveinn en bætir við að hluti af því verði pallborð á ráðstefnu Reykjavíkurleikanna (RIG) sem fram fer í byrjun næsta árs. Þar mun hinsegin íþróttafólk segja sína sögu.

Það segir hann skref í rétta átt. Einnig megi finna alls konar sögur á heimasíðu Hinsegin daga undir greininni: Hvar er hinsegin íþróttafólkið?

 

Fræðsla til íþróttafélaga

„Aðalatriðið er að öll íþróttafélög, sérsambönd og regnhlífarsamtök fái hinsegin íþróttafræðslu,“ segir Sveinn og bætir því við að reynslan síðastliðið ár sýni að það hafi gífurlega jákvæð áhrif. „Stærsta jákvæða þáttinn þar má sjá hjá þeim félögum sem ég heimsótti tvisvar. Í fyrra skiptið vissu margir ekkert hvar hægt væri að finna upplýsingar til að leysa ákveðin vandamál sem geta komið upp tengd hinsegin fólki. Í seinni heimsókninni svöruðu allir í kór: Ef við vitum ekki svarið heyrum við í Samtökunum 78 eða Svenna! Það var eins og tónlist í eyrum mér,“ segir Sveinn.

 

Bjartsýnn á framhaldið

Heilt yfir segist Sveinn vera gífurlega bjartsýnn á þróun mála. Um þessar mundir eigi sér stað ótrúlega flott vinna á sviðinu en líka á bak við tjöldin.

„Þetta á bæði við um íþróttahreyfinguna og fleiri staði. Á næsta ári er líka að koma út fullt af flottu fræðsluefni sem er hluti af verkefni stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks. Auk þess er vinna að hefjast við að leysa flest þau vandamál sem ég hef nefnt hér áður. Það er komið af stað og mun auðvitað taka sinn tíma. En það tekst,“ segir Sveinn.

„Góðir hlutir gerast í þessu tilfelli hægt. En við sjáum málefni hinsegin fólks í íþróttum færast í rétta átt hérna á Íslandi, þótt það sé kannski erfitt að sjá það akkúrat núna í miðju bakslagi. En aðaláherslan þarf að vera á fræðslu og meiri fræðslu,“ segir Sveinn að lokum.

Sveinn mun stýra pallborði um hinsegin og kynsegin fólk í íþróttum á ráðstefnu sem ÍBR, ÍSÍ og UMFÍ standa fyrir með Háskólanum í Reykjavík 25. janúar næstkomandi. Þemað ráðstefnunar verður inngilding í íþróttum. Á ráðstefnunni verða sex pallborð þar sem fatlað íþróttafólk, hinsegin og kynsegin íþróttafólk, íþróttafólk af erlendum uppruna og aðrir sérfræðingar segja sínar reynslusögur og hvað er hægt að gera betur.

Dagskrá ráðstefnunnar.

 

Allt í nýjasta tölublaði Skinfaxa

Viðtalið við Svein Sampsted er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ.

Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.

 

Lesa Skinfaxa á umfi.is

Lesa Skinfaxa á issuu.com

 

Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem á erindi við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna þá er um að gera og senda okkur línu á umfi@umfi.is

Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið það á umfi.is.