Fara á efnissvæði
19. febrúar 2020

Margir áhugasamir á vinnustofu um Heimsmarkmiðin

„Sumir spyrja hvað gerist ef við gerum ekki neitt. Við vitum að það verður á kostnað okkar allra. Þess vegna eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna tæki fyrir okkur öll til að ræða á sama tungumáli,“ segir Ásta Bjarnadóttir, verkefnastjóri stjórnvalda um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Hún var á meðal þeirra sem stýrðu vinnustofu fyrir frjáls félagasamtök sem fram fór í þjónustumiðstöð UMFÍ í dag. Vinnustofan var á vegum Almannaheilla, sem UMFÍ á aðild að og sæti í stjórn, ásamt Félagi Sameinuðu þjóðanna og Forsætisráðuneytinu. Markmiðið með vinnustofunni var að þátttakendur geti kortlagt verkefni sín, tengt þau við heimsmarkmiðin og innleitt þau í starfsemi félagasamtaka sinna.

Eins og sjá má á myndunum hér að neðan var vinnustofan vel sótt af forsvarsmönnum ýmissa félagasamtaka.

UMFÍ hvatti starfsfólk íþrótta- og ungmennafélaga sérstaklega til að nýta sér vinnustofuna.

Í vinnustofunni fór Ásta yfir það hvað Heimsmarkmiðin eru og aðgerðir stjórnvalda. Hún benti meðal annars á að Heimsmarkmiðin eru hvatning til að gera betur á ýmsum sviðum. Þau séu á sama tíma jafnvægisleikur þar sem eitt markmið getur vegið þyngra en annað. Því verði að vega og meta hvert markmið og hvernig starf félagasamtaka passar inn í þau. Kjarninn sé þó sá að bæta heiminn og skilja enga einstaklinga eða flokka starfsins út undan. Í vinnu stjórnvalda sé lögð áhersla á að mæla árangurinn af öllum þáttum starfsins.

Ásamt Ástu ræddi Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna, um tækifærin sem felast í innleiðingunni fyrir félagasamtök. Þá fræddi Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, gesti með ítarlegum hætti um það hvernig Landvernd innleiddi Heimsmarkmiðin inn í starf sitt og fór í yfir hvern þann flokk sem Landvernd passaði inn í. Skátarnir voru sömuleiðis með kynningu á sínu innleiðingarferli auk þess sem kynning var frá Rauða krossinum.

Að kynningum loknum voru umræðulotur þar sem fundargestir ræddu um það hvernig þeirra félagasamtöku féllu að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.