Fara á efnissvæði
12. maí 2018

Margir vildu prófa að skjóta af rifflum í Kringlunni

Endalaus áhugi var á rafrifflum UMFÍ sem voru sýndir og fólki leyft að prófa á Sportdögum í Kringlunni í dag. Gestir á Sportdögum í Kringlunni fengu að prófa að skjóta í mark með rifflunum á sérmerktri 10 metra skotbraut í göngugötu Kringlunnar þar sem UMFÍ kynnti Landsmótið sem verður á Sauðárkróki í sumar. Rifflarnir fengu næstum ekkert að liggja kyrrir á Sportdögunum. Rifflarnir eru þeir sömu og verða notaðir í biathloni á Landsmótinu á Sauðárkróki.

Biathlon er eins og skíðaskotfimi sem keppt er í á Ólympíuleikunum nema á Landsmótinu er engin skíði. Þess í stað hlaupa keppendur ákveðna vegalengd, skjóta síðan af riffli í mark og spretta úr spori á ný. Ef keppendur missa marks þurfa þeir að hlaupa sérstakan refsihring.

Landsmótið er nýtt mót, sannkölluð íþróttaveisla fyrir 18 ára og eldri og verður það haldin á Sauðárkróki 12. - 15. júlí. Á mótinu er hægt að velja rúmlega 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks. Landsmót UMFÍ 50+ er haldið á sama tíma og verður þetta stærsta mótið fyrir fimmtíu ára og eldri.

Rafrifflarnir verða aftur til sýnis í Kringlunni og gestum leyft að prófa þá á morgun. Á staðnum er líka pannafótboltavöllur fyrir þá sem vilja prófa að spila æsispennandi fótbolta á pínulitlum velli. Það er miklu skemmtilegra.

 

Meiri upplýsingar og skráning á Landsmótið á www.landsmotid.is

Hér eru fleiri myndir frá Sportdeginum í Kringlunni.