Fara á efnissvæði
16. apríl 2019

Margrét er nýr formaður héraðssambandsins Hrafna-Flóka

„Mér finnst þetta spennandi og hef áhuga á menntun þjálfara. Íþróttastarfið hefur líka vaxið mikið hjá sambandinu,“ segir Margrét Brynjólfsdóttir. Á héraðsþingi héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF) í síðustu viku tók hún við formannssætinu af Iðu Marsibil Jónsdóttur. Margrét segist ekki vera neinn nýgræðingur enda hafi hún verið formaður íþróttafélagsins Harðar á Patreksfirði í fimmtán ár. Vettvangurinn sé þó aðeins stærri auk þess sem hún geti farið á þing og sinnt stjórnunarhlutverkinu betur.  Íþróttafélagið Hörður er aðildarfélag Hrafna-Flóka.

Á héraðsþinginu komu tveir nýir inn í stjórnina. Auk Margrétar varð það Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson. Kristrún Guðjónsdóttir situr áfram í stjórn.

Á þinginu var nýtt félag tekið inn í héraðssambandið. Það var Fimleikafélag Vestfjarða sem stofnað var á síðustu vorönn og er með fimleikaæfingar á Tálknafirði og Patreksfirði.  Iðkendur eru 75 talsins.  

„Þetta er að verða stærsta félagið innan HHF,“ segir Margrét og reiknar með því að fimleikafólkið fari að vestan austur á Höfn á Hornafjörð þegar Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið þar um verslunarmannahelgina í sumar.

Margrét segir mikið um að vera á svæði HHF. Mjög hátt hlutfall barna og ungmenna stundi íþróttir, margt sé orðið í boði á svæðinu og geti fólk valið úr greinum. Auk fimleika hafa auk þess verið stigin fyrstu skrefin í því að stofna bogfimideild innan skotfélagsins.

„Íþróttastarfið hefur vaxið mikið, reyndar allt starf HHF,“ segir  Margrét. Skýringuna segir hún þá að samfélagið hafi stækkað mikið á sunnanverðum vestfjörðum, þar sé næg atvinna í boði, fólk flytji á svæðið og það skili sér bæði í aukinni þátttöku í íþróttum og fjölbreytni.

 

Meiri upplýsingar um Héraðssambandið Hrafna-Flóka á Facebook.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá stjórn og varastjórn HHF. Margrét er fyrir miðju. 

Á myndinni fyrir neðan er fráfarandi stjórn ásamt Iðu Marsibil Jónsdóttur, fráfarandi formanni HHF, fyrir miðju. Á hinni myndinni eru íþróttamenn ársins hjá HHF.