Fara á efnissvæði
25. maí 2022

Margrét Lilja: Við getum breytt þessu

„Við leggjum mikla áherslu á að börn af erlendum uppruna stundi skipulagt íþróttastarf. Þar er tungumálið ekki vandamálið,“ segir Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari við íþróttadeild Háskólans í Reykjavík.

Á málþingi sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í morgun um þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi.

Yfirskrift málþingsins var: Vertu með! Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþróttum. Eins og yfirskriftin bar með sér var umfjöllunarefnið það hvernig hægt er að ná betur til fólks af erlendum uppruna og fjölga iðkendum af erlendu bergi brotið í skipulögðu íþróttastarfi. Á dagskránni voru áhugaverð og gagnleg erindi. Meðal annars sagði forsvarsfólk nokkurra íþróttafélaga frá því hvað þau gerðu til að ná árangri í málaflokknum.

 

Lítið hefur þokast 

Á málþinginu fór Margrét Lilja yfir niðurstöður kannana sem lagðar eru fyrir grunnskólabörn einu sinni á ári. Niðurstöðurnar benda til sem dæmi að 82% barna í 1.-2. bekk, og eru frá heimilum þar sem íslenska er töluð, taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi að minnsta kosti einu sinni í viku. Hlutfallið er ekki nema 62% hjá börnum frá heimilum þar sem annað tungumál er talað.

Samkvæmt niðurstöðum kannananna taka ríflega 36-50% barna af erlendum uppruna í tilteknum aldursflokkum aldrei þátt í skipulögðu íþróttastarfi.

Fram hefur komið í könnununum að stúlkur af erlendu bergi brotnar eru líklegri en strákar til að stunda ekki íþróttir. Þá hefur komið í ljós að börn af erlendum uppruna hafa stærri hlutverk á heimilum sínum en börn frá heimilum þar sem íslenska er töluð. 

Margrét Lilja sagði niðurstöðurnar daprar enda sýni þær að lítið hafi þokast í þessum málum í gegnum árin.

„Það var kannski engin forvörn í því að stunda íþróttir fyrir 30 árum. En við höfum náð að byggja upp gott starf og náð að skipuleggja frítíma barna með skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Til að líta á þetta sem forvarnarþátt þá þarf starfið að vera skipulagt,“ hélt hún áfram og lagði áherslu á að halda áfram og gera betur.

„Við getum breytt þessu,“ sagði hún.