Fara á efnissvæði
20. febrúar 2018

Margrét og Helga fengu starfsmerki UMFÍ

Þær Margrét Björnsdóttir frá íþróttafélaginu Glóð í Kópavogi og Helga Jóhannesdóttir frá Aftureldingu í Mosfellsbæ voru heiðraðar með starfsmerki UMFÍ á ársþingi UMSK í síðustu viku. Starfsmerkin hlutu þær fyrir störf sín fyrir UMFÍ og UMSK í gegnum tíðina. Tilefnið var að báðar gengu þær úr stjórn UMSK á ársþinginu.

Nánar um Margréti og Helgu

 

Margrét Björnsdóttir

Margrét hefur lengi átt aðkomu að íþrótta- og ungmennastarfi kom að stofnun körfuknattleiksdeildar Breiðabliks, hefur tekið þátt í starfi Siglingaklúbbsins Ýmis allt frá fyrstu árum klúbbsins og var driffjöður í uppbyggingu núverandi félagsaðstöðu klúbbsins í Kópavogi og sat í stjórn í mörg ár. Í dag er Margrét formaður hjá íþróttafélaginu Glóð. Margrét hefur setið í stjórn UMSK í tólf ár og lengst af sem ritari sambandsins. Umhverfismálin eru Margréti hugleikin og lagði hún þeim málaflokki lið innan UMFÍ sem formaður Umhverfisnefndar sambandsins um árabil. Margrét hefur komið víða við, lætur verkin tala og á sannarlega skilið að hljóta starfsmerki UMFÍ.

 

Helga Jóhannesdóttir

Helga hefur setið í stjórn Aftureldingar til fjölda ára og lengst af sem gjaldkeri félagsins. Helga hefur einnig verið í varastjórn UMSK síðastliðin fjögur ár. Þá hefur hún setið í stjórn UMFÍ í fjögur ár og m.a. sem gjaldkeri samtakanna. Helga hefur því tekið þátt í störfum ungmennafélagshreyfingarinnar á öllum stigum. Helga er nákvæmnismanneskja fram í fingurgóma og sér oftar en ekki báðar hliðar á sama viðfangsefninu. Þá er hún óhrædd við að spyrja gagnrýninna spurninga með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og er verðugur fulltrúi ungmennafélagshreyfingarinnar.