Fara á efnissvæði
24. mars 2021

María hjá HSÞ sæmd starfsmerki UMFÍ

„Þetta var mjög gott þing,“ segir Gunnhildur Hinriksdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ), en ársþing sambandsins fór fram á laugardag á Þórshöfn. Á þingið nú mættu fulttrúar frá 19 af 23 virkum aðildarfélögum. Ekkert þing var haldið á síðasta ári vegna samkomutakmarkana.

 

Jónas áfram formaður

Á þinginu var Jónas Egilsson endurkjörinn formaður til eins árs. Í stjórn sem kjörin var á þinginu eru eftirfarandi: Garðar Héðinsson frá Skotfélagi Húsavíkur, og Anna María Ólafsdóttir frá Ungmennafélagi Langnesinga voru kosin meðstjórnendur til tveggja ára, Selmdís Þráinsdóttir frá Völsungi á Húsavík og Sigfús Hilmir Jónsson frá Hestamannafélaginu Grana, voru kosin meðstjórnendur til eins árs, Sigurlína Tryggvadóttir frá Ungmennafélaginu Einingunni var kosin varamaður til tveggja ára og Kristinn Björn Haraldsson frá Ungmennafélaginu Mývetningi kosinn varamaður til eins árs.

 

 

María Sigurðardóttir var á þinginu sæmd með starfsmerki UMFÍ. Hún sat í frjálsíþróttaráði HSÞ árin 2014 – 2019. Fyrst var hún í ráðinu sem almennur stjórnarmeðlimur en síðan sem gjaldkeri í þrjú ár. Innan frjálsíþróttaráðsins tók hún þátt í því umfangsmikla starfi sem frjálsíþróttaráð hefur staðið fyrir í gegnum tíðina. Meðal þess er að undirbúa, skipuleggja og starfa við Sumarleika HSÞ og innanhússmót HSÞ, skipuleggja fjölmargar keppnisferðir HSÞ bæði innanlands og utan, koma á æfingabúðum og margt fleira. Hún hefur í störfum sínum farið ófáar ferðir á milli landshluta að fylgja krökkum eftir á mót og aðstoða bak við tjöldin.

Gullmerki HSÞ hlutu þau Sölvi Alfreðsson, Jón Þórir Óskarsson, Kristján I. Jóhannesson og Jón Friðrik Benónýsson en silfurmerki þau Hermann Aðalsteinsson, Stefán Jónasson, Jóhanna S. Kristjánsdóttir og Elísabet Sigurðardóttir. 

Íþróttamenn HSÞ 2020 voru jafnframt heiðraðir. Íþróttamaður HSÞ 2020 var kjörin Erla Rós Ólafsdóttir.

 

Sjóðir sameinaðir og tekið til í félagatali

Fram kemur á vefsíðu HSÞ að fjölmargar tillögur lágu fyrir þinginu. Góð og mikil umræða hafi náðst um þær. Þar á meðal voru tillögur upp uppfærð lög HSÞ og breyting á úthlutunarreglum sem fólu í sér að sameina úthlutunarsjóði HSÞ í einn sjóð með betri möguleika á nýtingu fjármagnsins úr þeim. Þá var skráning ungmennafélagsins Reykhverfungs úr HSÞ samþykkt ásamt úrsögn Skákfélagsins Hugans og innganga Skákfélagsins Goðans endurvakin.

Fleiri fréttir af þingi HSÞ má sjá hér.