Fara á efnissvæði
21. febrúar 2025

Markaðsmál íþróttafélaga ekki unnin af fagmennsku

„Vörumerki íþróttafélaga eru með þeim verðmætustu á Íslandi. Á sama tíma er markaðsstarfi þeirra stýrt af sjálfboðaliðum. Ég velti fyrir mér af hverju markaðsmál félaganna eru  ekki unnin af meiri fagmennsku,“ segir Stjörnumaðurinn Pétur Rúnar Heimisson, markaðs- og þjónustustjóri fasteignafélagsins Heima. Hann var með áhugavert erindi á  haustfundi Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) fyrir áramót.

Fundinn sátu formenn og framkvæmdastjórar aðildarfélaga UMSK til að ræða lykilatriði í starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Fundurinn var vettvangur til að miðla upplýsingum, styrkja tengsl og leita nýrra lausna við sívaxandi áskorunum. 

 

Risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða

Á fundinum fjallaði Pétur um markaðsmál íþróttafélaga og þau ógrynni tækifæra sem liggja ónýtt. Hann auglýsti jafnframt eftir mark- vissri og faglegri markaðssetningu íþróttafélaganna. Í erindi sínu benti Pétur á að íþróttafélögin væru mörg hver orðin risafyrirtæki, þau stærstu með allt upp 1 – 2 milljarða króna veltu á ári og fleiri í námunda við milljarðinn. Á sama tíma væru þau mörg rekin af mögnuðu starfsfólki og sjálfboðaliðum sem horfa til skamms tíma – og oftar en ekki með frekar óskipulögðum hætti. 

„Þetta eru ofurhugar sem draga alla áfram af einskærum áhuga og eldmóði. Þau sem taka  verkin að sér gera það hratt og ná árangri til  skamms tíma. En við þurfum að hugsa lengra, stefna að árangri og uppbyggingu til lengri tíma. Gera áætlanir til að styrkja ímynd og tekjugrunn þeirra. Oft virðist sem skorti á að félögin séu meðhöndluð af þeirri virðingu og fagmennsku sem þau eiga skilið,“ segir Pétur og bendir á að íþróttafélögin séu frábær vörumerki. Þau skapi sterka samkennd í nærsamfélaginu og hafi mikið viðskiptalegt gildi. Af þeim sökum má ætla að það margborgi sig að setja fjármagn í markaðsstarfið. Svo er hins vegar ekki. 

„Í raun eru fyrirtæki og íþróttafélög keimlík. Þau veita og selja vöru og þjónustu. Fyrirtæki  fjárfesta árlega stórum upphæðum í markaðs- málum. Öðru máli gegnir um íþróttafélög sem eiga mörg af sterkustu vörumerkjum landsins. Þar eru vissulega markaðsstjórar víða. En sá  er oft líka viðburðastjóri og sér jafnvel líka um  gervigrasið. Þar eru einfaldlega ekki settar nægilega háar fjárhæðir í markaðsstarf íþróttafélaga. Þar er oft enginn að passa hvernig vörumerkin eru notuð, enginn sem passar hvernig þjálfarar tala og haga sér, og enginn að huga að langtímauppbyggingu vörumerkisins og vörunnar sem er verið að selja,“ segir Pétur og bætir við að mörg félög séu komin eitthvað af stað í þessa átt en betur má ef duga skal. Mörg félaganna séu lítil og hafi ekki mikið bolmagn og er mjög skiljanlegt að slík félög haldi ekki úti öflugu, skipulögðu markaðsstarfi. 

 

Betra samtal við markhópa 

Pétur bendir á að markvisst markaðsstarf geti styrkt rekstur íþróttafélaga til muna. 

„Öll félög reiða sig á styrki og framlög frá sveitarfélögum, fyrirtækjum og foreldrum  iðkenda. Þetta leiðir oft til þess að fjármagnið er tryggt og verkefnum eins og markaðssetningu er annaðhvort sinnt í hjáverkum eða þau  alfarið vanrækt,” segir hann og telur að með því að setja fjármagn í verkefnið muni það skila  sér í markvissu markaðsstarfi íþróttafélaga. Það geri íþróttafélög eftirsóttari en áður, íþróttafólk vilji keppa undir merkjum þess, starfsfólk vilji starfa þar, fyrirtæki vilji frekar styrkja það, fólk sem hætt er að keppa undir merkjum félagsins bjóði sig fram til sjálfboðaliðastarfa og leggi sitt af mörkum þótt það hafi flutt á milli bæjarfélaga. 

„Markaðssetning snýst í grunninn um að skilja og mæta þörfum hagaðila, neytenda, og viðskiptavina. Hún felur í sér að skapa og koma á framfæri virði sem upplifir þarfir og óskir fólks svo viðskiptavinurinn fái það sem hann leitar að, á þann hátt að hann er tilbúinn til að borga fyrir það og halda tryggð við merkið,” segir hann. 

 

Og planið er? 

„Það þarf oft ekki að gera mikið en það þarf að gera eitthvað, móta stefnu, setja upp lykil- markmið, skilgreina lykilverkefni, gera áætlun um birtingar á samfélagsmiðlum, sendingar á póstlista, halda heimasíðu uppfærðri og margt fleira. Markviss vinna gerir starfið mun  skýrara og félagið faglegra og það nær mun  betur til markhópa með skilvirkari og árangurs- ríkari hætti en áður,“ segir Pétur. 

„Lykilatriðið er samt að úthluta fjármagni  sérstaklega til markaðssetningar, setja sér  markmið, kortleggja markhópana og skila- boðin og byrja. Þótt íþróttafélag geti ekki ráðið markaðsstjóra í fullt starf þá er hægt að gera það í hlutastarfi. Það má líka kaupa þjónustuna. Ef félögin ætla að ná góðum árangri þá þurfa þau að hafa plan og vinna stöðugt og markvisst að því. Það skilar árangri,“ segir Pétur Rúnar að lokum og hvetur forsvarsfólk til að hafa samband vilji það fá fleiri ráð í tengslum við markaðsstarf íþróttafélaga.

 

í HNOTSKURN
  • Hagræða takmörkuðu fjármagni í markaðsmál: Íþróttafélög þurfa að finna leiðir til að fjárfesta í markaðsmálum. Annað hvort að fá sjálfboðaliða til þess eða ráða sérfræðing í hlutastarf.
  • Skilgreina markhópa: Íþróttafélög þurfa að skilgreina helstu hagsmunaaðila, hvort sem það eru iðkendur, foreldrar, styrktaraðilar, sveitarfélag/ bæjarfélag eða aðrir.
  • Skerpa á skilaboðum: Mikilvægt er að skilaboð íþróttafélagsins út á við séu skýr, áhrifarík, lýsandi fyrir það sem félagið stendur fyrir og hvað þau hafa upp á að bjóða.
  • Nýta samfélagsmiðla: Samfélagsmiðlar eru ómetanlegur vettvangur fyrir íþróttafélög til að ná til fólks og eiga í samskiptum við mismunandi markhópa.
  • Mæla árangur: Mikilvægt er að finna leiðir sem nýtast við að mæla árangur markaðsstarfs til að meta hvað virkar og hvað þarf að bæta.

 

Allt um málið í Skinfaxa

Viðtalið og umfjöllunin er öll í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að lesa blaðið á umfi.is. Líka er hægt að smella á myndina hér að neðan og opna blaðið. 

Lesa Skinfaxa