Fara á efnissvæði
13. júlí 2018

Mikið um að vera á fyrsta degi Landsmótsins

Sauðárkrókur hefur verið undirlagður Landsmótinu í dag. Bærinn tók að fyllast af fólki strax í gær á fyrsta degi mótsins. Boðið var upp á 44 viðburði á Landsmótinu í dag. Bæði voru þetta viðburðir sem þátttakendur þurfa að skrá sig í en líka kynning á ýmsu skemmtilegu, allt frá fótboltapönnu og boccía, CrossFit til þrautabrautar og petanque. Síðustu greinarnar eru götuhlaup, ringó og línudans.

Fjöldi fólks tók þátt í viðburðunum í dag en á annað þúsund þátttakendur eru skráðir til leiks á Landsmótinu og tengdum viðburðum í kringum það.

Landsmótið verður sett í Aðalgötunni á Sauðárkróki klukkan 19 í kvöld. Á sama tíma brestur á með götupartíi. Vertar bæjarins sjá um um matinn bæði úti og inni. Félagarnir Auður Blöndal og Steindi Jr. stýra götupartíinu ásamt því sem hljómsveitin Albratross heldur stuðinu uppi. Aðalsprauta Albratross er söngvarinn Sverrir Blöndal sem er frá Sauðárkróki.

Landsmótið er fjögurra daga íþróttaveisla á Sauðárkróki dagana 12. - 15. júlí 2018. Íþróttir og hreyfing eru í aðalhlutverki á daginn. Á kvöldin verður skemmtun og samvera í góðum félagssskap allsráðandi.

Landsmótið er með nýju og breyttu sniði frá því sem áður var. Allir 18 ára og eldri geta skráð sig, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki.  

Ítarlegri upplýsingar um Landsmótið er að finna hér: www.landsmotid.is

Hér má sjá myndir frá ýmsum viðburðum á Landsmótinu í dag.