Mikil gleði í Forsetahlaupi UMFÍ

Vel á þriðja hundrað þátttakendur sprettu úr spori í Forsetahlaupi UMFÍ sem fram fór á Álftanesi í blíðskaparveðri í morgun. Hlaupið var fyrir alla fjölskylduna, allskonar fólk og allskonar fætur.
Áherslan í hlaupinu var á gleði og samvinnu, hreyfingu og samveru – hinn eiginlega ungmennafélagsanda.
Þetta var í þriðja sinn sem Forsetahlaup UMFÍ fór fram og annað skiptið sem það er á Álftanesi. Hlaupið er haldið í samstarfi við Embætti forseta Íslands, Ungmennafélag Álftaness og Hlaupahóp Álftaness.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók þátt í upphitun og fór létt með 5 kílómetra sprettinn frá Íþróttamiðstöðinni, að Bessastöðum og til baka. Að hlaupi loknu var blásið til bæjarhátíðarinnar Forsetabikarinn og afhenti hann þar verðlaun.
Á meðal þátttakenda í hlaupinu voru forsetaframbjóðendurnir Helga Þórisdóttir sem hljóp með fjölskyldu sinni, og Ástþór Magnússon, sem fór leiðina með Haffa Haff og sá var í gríðarlega góðu skapi.
Allir þátttakendur fengu þátttökuverðlaun, þar á meðal forseti Íslands, sem var að sjálfsögðu með númerið 1.




