Mikill áhugi á bogfimi og ringó á Króknum
„Þetta var alveg meiriháttar. Heilu fjölskyldurnar voru áhugasamar um allar greinarnar á Landsmótinu og svo var stanslaus röð af fólki í bogfimi og ringó hjá okkur. Allir voru svo kátir og glaðir. Það besta var að um leið og við hófum leikinn braust sólin fram,“ segir Pálína Ósk Hraundal, annar af tveimur verkefnastjórum Landsmótsins sem fer fram dagana 12. – 15. júlí á Sauðárkróki.
UMFÍ stóð fyrir kynningu á bogfimi, ringó og stígvélakasti á Sauðárkróksvelli í gær, sunnudaginn 1. júlí. Sannkölluð íþróttaveisla er framundan á Króknum dagana 12. – 15. júlí því þetta eru aðeins þrjár greinar af rúmlega 30 sem boðið verður upp á á Landsmótinu.
Pálína er í skýjunum með mótttökurnar á Sauðárkróki.
Indriði Ragnar Grétarsson, eldhugi Skagafjarðar fyrir bogfimi, er sérgreinarstjóri í greininni á Landsmótinu. Mjög margir höfðu áhuga á að skjóta af boga hjá honum.
„Fólki fannst líka svo rosalega gaman í ringó að það talaði um að vilja æfa greinina í vetur,“ segir Pálína.
Hér má sjá myndir frá kynningunni á Sauðárkróki.